Tveir fyrir einn á Listasafn Reykjavíkur Kjarvalsstöðum í ágúst fyrir korthafa

Í ágúst geta korthafar boðið með sér á Kjarvalsstaði þar sem gefur að líta þrjár sýningar. 

William Morris: Alræði fegurðar! 30.06.2019 – 06.10.2019

“Ég vil ekki list fyrir fáa fremur en menntun fyrir fáa eða frelsi fyrir fáa.” – William Morris, 1877.

Morris (1834-1896) var listamaður, hugsuður, rithöfundur og samfélagsrýnir og hafði mikil áhrif á samtíma sinn og skildi eftir sig sjónrænan menningararf og hugmyndafræði sem hafa haft áhrif allt til okkar daga.

Tengsl Morris við Ísland eru áhugavert rannsóknarefni en hann ferðaðist hingað tvisvar á starfsævi sinni, árið 1871 og árið 1873. Morris varð fyrir miklum áhrifum í Íslandsheimsóknum sínum, heillaðist bæði af menningu og náttúru. Heimildir herma að hann hafi ætíð upplifað sig sem mann norðursins og lýsti það sér í óstöðvandi áhuga hans á íslenskum bókmenntum en ekki síður í ófáguðu útliti.

Jóhannes S. Kjarval: Get ekki teiknað bláklukku 25.05.2019 – 05.01.2020

Listamaðurinn Eggert Pétursson (f. 1956) hefur sett saman sýningu á blómaverkum Jóhanners S. Kjarvals. Verkunum er raðað í þrjá meginflokka í þrjá sali sýningarinnar:

Í miðsalnum er blómalandslag og myndir úr íslenskri villiflóru. Þar eru verk þar sem Kjarval tekst fyrst á við villt blóm, aðallega lyng. Í rissi og pári Kjarvals er oft hægt að þekkja algengar blómategundir og þannig skissur getur að líta í sýningarkössum. Landslag og blómapár fléttast saman í verkum Kjarvals og á síðustu árum ferilsins málar hann hugarlandslag, gráa veröld sem blóm lýsa upp.
Í norðursalnum eru verk sem kalla mætti hátíðarblóm, það eru afskorin blóm, pottablóm og blómakörfur, verk sem Kjarval gerði til gjafa, bæði frá sjálfum sér eða fyrir aðra að gefa.
Í suðursalnum eru síðan blómafantasíur Kjarvals, þar sem andlit og verur fléttast saman við blómapár í málverkum, teikningum og rissi.

Sölvi Helgason: Blómsturheimar 25.05.2019 – 06.10.2019

Sölvi Helgason eða Sólon Íslandus eins og hann kallaði sig líka, er tvímælalaust einn af áhugaverðustu alþýðulistamönnum sem þjóðin hefur alið.Fjölskrúðugt blómaflúr er aðaleinkenni mynda Sölva og notaði hann margoft sömu blómamynstrin, annaðhvort sem aðalatriði myndflatarins eða sem bakgrunn andlitsmynda.
Sölvi var einnig sískrifandi, bæði sagnfræðilega texta, ljóð og hugleiðingar. Eru bakhliðar mynda hans oft þaktar örsmárri handskrift og pappírinn nýttur til hins ýtrasta.Á sýningunni Blómsturheimar verða sýnd 16 áður óþekkt verk eftir Sölva Helgason sem varðveist hafa í Danmörku. Er þessi mikilvægi íslenski menningararfur gjöf Ingrid Nielsen til íslensku þjóðarinnar.

*Menningarkorthafar geta tekið með sér einn gest í hvert skipti sem þeir heimsækja safnið í ágúst.