Tveir fyrir einn á Árbæjarsafn | Afmælissýning Nóa Síríus

Korthafar Menningarkortsins geta tekið með sér einn gest í hvert skipti sem þeir heimsækja Árbæjarsafn í október. Árbæjarsafn er útisafn sem er opið allan ársins hring. Þar er safn gamalla húsa sem flest hafa verið flutt á safnsvæðið úr miðbæ Reykjavíkur. Svæðið skiptist í torg, þorp og sveit og gefur góða mynd af umhverfi og bæjarbrag í Reykjavík á 19. og 20. öld. Á safninu er boðið upp á fjölda sýninga og viðburða, þar sem einstökum þáttum í sögu Reykjavíkur eru gerð skil.

ÖLDIN HANS NÓA: AFMÆLISSÝNING NÓA SÍRÍUS

Öldin hans Nóa er sérstök afmælissýning Nóa Síríus á Árbæjarsafni og segir sögu einnar elstu sælgætisgerðar Reykjavíkur. Í ár eru hundrað ár frá því að Brjóstsykursgerðin Nói sendi frá sér fyrstu lögunina af sínu landsfræga sælgæti. Síðan þá hafa ófáar karamellur verið tuggðar, allskyns dýrindis konfektmolar smakkaðir — að ekki sé talað um Opalið, súkkulaðið, brjóstsykurinn, páskaeggin og allt hitt ómótstæðilega góðgætið.

Nánari upplýsingar um dagskrá Árbæjarsafns má finna á http://www.borgarsogusafn.is