Tvær sýningaopnanir: Stór-Ísland og Garður

Sýningarnar Stór-Ísland og Garður verða opnaðar í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi föstudag 13. október kl. 20.00. Arna Schram, sviðsstjóri Menningar- og ferðamálasviðs opnar sýningarnar.

Á sýningunni Stór-Ísland verða sýnd verk sjö listamanna, það eru Anna Hallin, Claudia Hausfeld, Jeannette Castioni, Joris Rademaker, Rebecca Erin Moran, Sari Cedergren og Theresa Himmer. Listamennirnir koma frá Svíþjóð, Þýskalandi, Ítalíu, Hollandi, Bandaríkjunum, Finnlandi og Danmörku en hafa búið og starfað á Íslandi um lengri eða skemmri tíma.

Listafólkið fékk frjálsar hendur við að velja hvaða verk það vildi sýna. Áhrifin gætu orðið eitthvað í líkingu við að heyra nokkur móðurmál töluð í einu. Stór-Ísland getur verið staður þar sem listin afhjúpar ólýsanlegar tilfinningar og „túlkar“ hugtök með ímyndum sem standa stakar en ekki einar.

Sýningin Garður er hluti af D-salarröð Listasafns Reykjavíkur. Þrítugasti og fyrsti listamaðurinn sem sýnir í D-salnum að þessu sinni er Anna Rún Tryggvadóttir.

Náttúrunni í Garði Önnu Rúnar hefur verið umbreytt. Hún tekur á sig ófyrirséðar myndir þegar ólík efni mætast og finna sér sinn eigin farveg innan rammans sem sýningin býður upp á. Umbreytingarferlið verður áhorfendum ljóst og verkin verða síbreytileg í efnislegum gjörningi.

Stór-Ísland
Í orðinu „Stór“ í heiti sýningarinnar má sjá tilvísun í fjölbreytileikann sem hefur gert sig heimakominn á listasviðinu á Íslandi í marga áratugi. Ef nefna á listamann sem gerði Ísland að heimili sínu og hafði áhrif, mun margt málsmetandi fólk í listaheiminum vilja nefna Dieter Roth (f. í Þýskalandi 1930, d. 1998 í Sviss) sem flutti til Íslands seint á sjötta áratugnum og varð íslenskur ríkisborgari. Stór-Ísland vísar þannig til þeirra möguleika sem þessu listafólki eru færir, einstakrar innsýnar þess og framlagi til listarinnar. Sýningarstjóri er Yean Fee Quay.

Anna Hallin fæddist árið 1965 í Olofström, bæjarfélagi í suðurhluta Svíþjóðar. Hún lærði keramik og útskrifaðist með meistaragráðu frá háskólanum í Gautaborg og lauk síðar MFA-gráðu í myndlist frá Mills College í Oakland í Kaliforníu. Hún hefur búið og starfað á Íslandi síðan 2001.

Claudia Hausfeld fæddist árið 1980 í Berlín, Þýskalandi. Hún bjó í Sviss og Danmörku áður en hún flutti til Íslands árið 2010. Hún lærði ljósmyndun við Listaháskólann í Zürich og hefur lokið BA-gráðu frá Listaháskóla Íslands.

Jeannette Castioni fæddist árið 1968 í Veróna á Ítalíu. Hún lærði við myndlistarskóla í Bologna. Eftir að hún flutti til Íslands árið 2004 hélt hún áfram námi við Listaháskólann og lauk þaðan BA-prófi. Síðar hlaut hún MFA-gráðu við Goldsmith’s College í London.

Joris Rademaker fæddist árið 1958 í smábænum Eersel í Hollandi. Hann lauk listamenntun sinni í Mollerinstituut, Tilburg og við AKI lista- og hönnunarskólann í Enschede í Hollandi. Árið 1991 tók hann sig upp og flutti til Íslands, settist að á Akureyri þar sem hann hefur búið og starfað síðan.

Rebecca Erin Moran fæddist árið 1976 í Greeley í Colorado í Bandaríkjunum. Eftir að hafa lokið BFA-námi við Listaskólann í Chicago, flutti hún til Hollands og síðan til Íslands árið 2005.

Sari Maarit Cedergren fæddist árið 1965 í Kauniainen, litlum bæ á stór-Helsinkisvæðinu í Finnlandi. Hún flutti til Íslands árið 1986 og hefur búið hér og starfað síðan. Hún hefur numið myndlist við Konstfack og KTH arkítektaskólann í Stokkhólmi, við Listaháskólann í Helsinki og við Myndlista- og handíðaskóla Íslands.

Theresa Himmer fæddist í Árósum í Danmörku árið 1976. Fyrst hafði hún þó tekið meistaragráðu í arkitektúr við Arkítektaskólann í Árósum. Hún lauk MFA-gráðu við myndlistarskóla og tók síðan eitt ár á sérstakri námsbraut við Whitney-listasafnið, hvort tveggja í New York. Theresa flutti til Íslands árið 2005.

Garður
Vatn og ólíkar birtingarmyndir þess er efni sem Anna Rún tekur sér oft fyrir hendur og gjarnan leiðir hún drjúpandi vatn um sýningarrýmið. Einnig birtist í verkum hennar samruni vatns við önnur lífræn efni svo umbreytingarferlið verður áhorfendum ljóst og verkin því síbreytileg í ósjálfráðri atburðarás.

Markmið sýningaraðarinnar í D-sal er að gefa efnilegum listamönnum tækifæri til að vinna innan veggja safnsins og beina athygli gesta að nýjum og áhugaverðum hræringum innan listheimsins. Á árinu 2017 eru áætlaðar fjórar sýningar í sýningaröðinni. Sýningarstjóri er Edda Halldórsdóttir.

Anna Rún Tryggavdóttir (1980) lærði myndlist við Listaháskóla Íslands og Concordia-háskólann í Montréal í Kanada. Meðal nýlegra sýningarverkefna má nefna einkasýningu í Hverfisgallerí (2016), samsýningu í Hafnarborg (2016) og þátttöku í Disko Arts Festival á Grænlandi (2017).