Sýningaropnun: PORTRETT Handhafar Hasselblad verðlaunanna

PORTRETT – Handhafar Hasselblad verðlaunanna er nafn sýningar sem opnuð verður í Ljósmyndasafni Reykjavíkur laugardaginn 24. september kl. 15. Sýningin stendur til 15. janúar 2017. Korthafar fá afhent sýningarplakat sýningarinnar gegn framvísun kortsins á meðan birgðir endast.

Á sýningunni gefur að líta úrval verka eftir handhafa Hasselblad-verðlaunanna úr safneign Hasselblad-stofnunarinnar í Svíþjóð – með sérstakri áherslu á portrett. Alls sjö ljósmyndarar eiga verk á sýningunni sem spanna tímabilið 1940 til 2014. Sýningin skartar lykilverkum goðsagna allt frá Irving Penn og portrettum hans af Salvador Dalí og Marcel Duchamp til Richards Avedon og verks hans The Family sem hann gerði fyrir tímaritið Rolling Stone af áhrifafólki í bandarísku þjóðlífi árið 1976. Á sýningunni er einnig að finna hina goðsagnakenndu tískumynd Avedons, Dovima with Elephants, Evening Dress by Dior, Cirque d’Hiver, Paris, August 1955.

Sigurvegarar Hasselblad-verðlaunanna á þessari sýningu eru:

Irving Penn, handhafi 1985
Richard Avedon, handhafi 1991
Christer Strömholm, handhafi 1997
Malick Sidibé, handhafi 2003
Nan Goldin, handhafi 2007
Ishiuchi Miyako, handhafi 2014
Wolfgang Tillmans, handhafi 2015

Sýningin PORTRETT – Handhafar Hasselblad verðlaunanna er unnin af Hasselblad stofnuninni. Sýningarstjóri er Dragana Vujanovic, aðalsýningarstjóri stofnunarinnar.

Með leyfi frá Hasselblad stofnunni, Gautaborg, Svíþjóð.

© Nan Goldin
Sjálfsportrett Inni/úti, 2006

Boðið verður upp á tvo viðburði í tengslum við sýninguna:

Sunnudagur 25. september kl. 13:30: Sýningarspjall með Dragönu Vujanovic Östlind sýningarstjóra.

Laugardagur 5.nóvember kl. 14:00: Áhrifavaldar – Sýningarspjall.