Sýningaopnun á Ásmundarsafni 19. janúar 2019.

Laugardaginn 19. janúar kl. 16.00 opna tvær nýjar sýningar á Ásmundarsafni við Sigtún. Ný yfirlitssýning á verkum Ásmundar Sveinssonar, Undir sama himni, og sýningin Skúlptúr og nánd með verkum myndlistamannsins Sigurðar Guðmundssonar.

Á báðum sýningum getur að líta frummyndir verka, skissur og teikningar auk listaverka sem eru einkennandi fyrir list Ásmundar og Sigurðar og hafa hugmyndaleg eða formræn tengsl við verk þeirra í almenningsrými.

Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur og eru sýningarnar liður í því markmiði safnsins að beina sjónum manna að þeim listaverkum sem við njótum sem hluta af daglegu lífi.

Sýningastjórar eru Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneignar og rannsókna, og Yean Fee Quay, verkefnastjóri sýninga hjá Listasafni Reykjavíkur.