Söguganga: 75 ár frá lokum seinni heimsstyrjaldar

Þriðjudaginn 8. september n.k. verður söguganga um Öskjuhlíð í tilefni þess að 75 ár eru frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Gengið verður frá bílastæðinu í Fossvogskirkjugarði kl: 17:10, mæting kl: 17:00.
Um þessar mundir eru liðin 75 ár frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar og í tilefni þess býður Borgarsögusafn Reykjavíkur til sögugöngu um okkar helstu stríðsminjar í Öskjuhlíð. Gangan hefst á bílastæði Fossvogskirkjugarðs þar sem yfir 200 hermenn úr seinni heimsstyrjöldinni eru grafnir í kirkjugarði breska samveldisins. Þaðan verður síðan gengið um skotbirgi og mannvirki frá seinni heimsstyrjöldinni verða skoðuð ásamt því sem fjallað verður um sögu stríðsáranna.
Gísli Jökull Gíslason mun leiða þessa seinni göngu eins og hina fyrri (sem fram fór 2. sept) en hann hefur skrifað bækurnar „Föðurlandsstríðið mikla og María Mitrofanova“ og bókina „Iceland in World War II – A Blessed War“. Jökull er fróður um tímabilið og hefur leitt slíkar göngur áður.
Gangan er ekki erfið og tekur rúmlega tvær klukkustundir. Mælt er með að fólk sé í þægilegum skóm og hluti leiðarinnar eru um malarstíga. Þátttaka er ókeypis.
Miðað verður við sóttvarnareglur, með hámarksfjölda 100 manns og að fólk virði 2 metra fjarlægðarreglu. Þátttakendur eru hvattir til að bóka sig í leiðsögnina hér á Facebook.