Sjókonur í buxum | Föstudagsflétta Sjóminjasafnsins

Föstudagsfléttan er viðburðaröð Borgarsögusafnsins þar sem fjölbreyttum sjónarhornum er fléttað saman við sýningar og starfsemi safnsins. Föstudagsflétta föstudagsins 2. október fer fram á Sjóminjasafninu í Reykjavík kl. 12:10-13:00. Hafdís Erla Hafsteinsdóttir sagnfræðingur fjallar um buxnanotkun íslenskra kvenna í sögulegu ljósi.

Buxur eru um margt hentugur klæðnaður, sérstaklega þegar kemur að ákveðum störfum eða vinnu. Það er þó ekki allra að klæðast buxum og sérstaklega hefur verið amast við buxnaklæddum konum í gegnum tíðina. Enn þann dag í dag eru fjölmörg ríki sem banna konum að klæðast buxum við hin ýmsu tilefni. Í fyrirlestrinum verður fjallað um nokkrar konur sem klæddust buxum til sjós og létu reyna á mörk samfélagsins hvað varðar kvenlega hegðun, klæðaburð og framkomu.

Fyrirlesturinn er ókeypis og eru gestir hvattir til að skoða sýningu safnsins að fyrirlestri loknum. Farið verður eftir öllum reglum hvað sóttvarnir varðar en vegna þeirra er aðeins pláss fyrir 25 gesti. Áhugasamir eru beðnir að senda skráningu í tölvupósti á sjominjasafnid@reykjavik.is

Hafdís Erla Hafsteinsdóttir er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur við Reykjavíkurakademíuna og einn af aðstandendum heimildarsöfnunarverkefnisins Huldukonur. Hinsegin kynverund kvenna í íslenskum heimildum 1700—1960 (huldukonur.is).