Nýtt Menningarkort 67+

Þann 1. júlí s.l. tók ný gjaldskrá gildi á söfnum Reykjavíkurborgar sem felur í sér að allir fullorðnir gestir greiða sama gjald inn á söfnin óháð aldri. Samhliða breyttu fyrirkomulagi var ákveðið að kynna til leiks sérstök Menningarkort fyrir 67 ára og eldri á afar hagstæðum kjörum.

Nýja Menningarkortið fæst með 70% afslætti, nú 1.800 kr., eða á sama verði og eitt stakt gjald inn á söfnin, og endurnýjun verður gjaldfrjáls að ári.

Það er einlæg ósk okkar að þeir sem eru 67 ára og eldri nýti sér það mikla menningarframboð sem borgin hefur upp á að bjóða í söfnum sínum með rauða Menningarkortinu. Við munum kappkosta að ná til hópsins með sérstökum tilboðum, viðburðum og uppákomum sem beint verður að handhöfum rauða kortsins, og vonumst við til þess að sjá fjölgun í hópi gesta í þessum hópi.

Kynning verður haldin á nýja kortinu á Kjarvalsstöðum miðvikudaginn 10. júlí kl. 14.00. Kortið verður selt með afslætti og mun kosta 1.500 kr. á meðan á kynningunni stendur, boðið verður upp á leiðsögn um sýningar á verkum Sölva Helgasonar og William Morris, nýir korthafar fá fría köku með kaffinu á kaffihúsinu á Kjarvalsstöðum og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs og Gísli Jafetsson framkvæmdastjóri félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni munu ávarpa gesti.