Listasafn Reykjavíkur opnar á ný!

Listasafn Reykjavíkur býður gesti velkomna á ný á Kjarvalsstaði og í Hafnarhús. Opnunartími er óbreyttur en tíu gestir geta verið í safnhúsunum í einu. Ásmundarsafn er lokað vegna breytinga. Til þess að bregðast við fjöldatakmörkunum og auðvelda gestum að skoða sýningar safnsins gefst kostur á að bóka heimsókn í Hafnarhús eða á Kjarvalsstaði á fyrirfram ákveðnum tíma á netinu. Eftir sem áður er gestum velkomið að koma án fyrirvara en bókaðir gestir hafa forgang í röð og gildir hver bókun í einn klukkutíma:

Hafnarhús – BÓKA NÚNA
Kjarvalsstaðir – BÓKA NÚNA

Í Hafnarhúsi standa yfir tvær sýningar; Gilbert & George: THE GREAT EXHIBITION og Erró: Sæborg.

Á Kjarvalsstöðum standa einnig yfir tvær sýningar; Jóhannes S. Kjarval: Hér heima og Sigurður Árni Sigurðsson: ÓraVídd.

Sigurður Árni Sigurðsson: Óravídd:

Ný yfirlitssýning á verkum Sigurðar Árna Sigurðssonar myndlistarmanns, Óravídd, hefur verið sett upp á Kjarvalsstöðum. Þess má geta að sú sýning verður nú sýnileg gestum í fyrsta sinn. Sigurður Árni Sigurðsson á að baki áhugaverðan listferil og hefur hann útfært verk sín með fjölbreyttum hætti. Hann hefur alla tíð spunnið stef við málverkið og tekist á við eiginleika þess miðils. Verk hans fjalla um það hvernig við horfum á heiminn í kringum okkur, þau vekja spurningar um eðli og takmörk sjónsviðsins og hvernig það leggur grunn að heimsmynd okkar. Þar kallast á bæði það sem sést með berum augum og einnig það sem við sjáum ekki. Samhliða sýningunni gefum við út glæsilega sýningarskrá og bætist hún í bókaflokk Listasafns Reykjavíkur um framúrskarandi samtímalistamenn.

Nánari upplýsingar um dagskrá má finna á heimasíðu Listasafns Reykjavíkur.