Listasafn Reykjavíkur – Hafnarhús: Hrina

Hrina er viðamikið sýningarverkefni þar sem tekinn verður til sýninga stór hluti þeirra kviku myndverka sem til eru í safneign Listasafns Reykjavíkur. Titill sýningarinnar vísar til þess að verkin verða sýnd í fjórum hrinum og stendur hver þeirra yfir í um það bil einn mánuð. Hrinurnar hafa hver sitt þema sem byggir á nálgun og viðfangsefnum listamannanna. Þemun eru leikur, gjörningur, skráning og frásögn.

Fyrsta hrinan sem hefst nú á fimmtudag ber yfirskriftina LEIKUR. Í henni verða verk eftir listamennina Egil Sæbjörnsson, Erró,Sigrúnu Harðardóttur, Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur og Steinu Vasulka. Tæknilega einkennast verkin meðal annars af tilraunakenndri nálgun við miðilinn og rannsókn á þeim möguleikum sem felast í tækninni. Í þessari hrinu verður sýnt verkið Tokyo Four eftir Steinu Vasulka. Steina skipar mikilvægan sess í framvindu vídeólistar enda virkur þátttakandi í hinni alþjóðlegu myndlistarsenu við upphafs- og mótunarár miðilsins, seint á sjöunda áratugnum.
Alls eru verk eftir 22 listamenn á sýningunni.
Næsta hrina, GJÖRNINGUR, hefst þann 9. febrúar. Þar verða sýnd verk eftir Ásdísi Sif Gunnarsdóttur, Ásmund Ásmundsson, Doddu Maggý, Erling Klingenberg, Gjörningaklúbbinn og Magnús Pálsson.
Þriðja hrinan er SKRÁNING og hefst 9. mars. Þar eiga verk Finnur Arnar Arnarsson, Hlynur Hallsson, Hlynur Helgason, Jeanette Castioni, Libia og Ólafur, Ósk Vilhjálmsdóttir og Ráðhildur Ingadóttir.

Fjórða og síðasta hrinan er FRÁSÖGN og hefst 6. apríl. Þar verða sýnd verk eftir Bjargeyju Ólafsdóttur, Gabríelu Friðriksdóttur, Sigurð Guðjónsson og Þorvald Þorsteinsson.

Samhliða sýningunni verður viðamikil dagskrá í Hafnarhúsinu með samtölum við listamenn og fyrirlestrum um vídeólist og nýmiðla og snertifleti við safneignir og varðveislu til framtíðar. Mikilvægur þáttur í sýningunni lýtur að innra starfi safnsins en á sýningartímabilinu verður unnið að hugmyndalegri og tæknilegri greiningu verkanna og skráningu þeirra.

Frekari upplýsingar um sýninguna er að finna á vef Listasafns Reykjavíkur.

Sýningin stendur til 07.05.2017