Júlí – 2 fyrir 1 á Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Ljósmyndasafn Reykjavíkur er miðstöð ljósmynda þar sem fortíðin og nútíðin mætast. Markmið safnsins er að varðveita, safna og sýna bæði sögulega og samtímaljósmyndun í listrænu, félags- og menningarlegu samhengi. Þar eru nú varðveittar um sex milljónir ljósmynda frá því um 1860 og fram til okkar tíma.

Á safninu standa nú yfir tvær sýningar:

Laura Valentino: Man ég fjallið 13.06.2019 – 21.08.2019

Laura Valentino kannar fegurð og munúð í sígildu myndefni eins og fólki og landslagi. Hún notar hefðbundnar ljósmyndunaraðferðir til að fanga hið eilífa og almenna í hversdagslegum viðfangsefnum. Með því að beita aðferðum hliðrænnar (e. analog) ljósmyndunar myndast fjarlægð milli viðfangsins og túlkunar á því. Útkoman vekur upp minningar og tilfinningar sem endurspegla framrás tímans.

Kristjón Haraldsson: Íslensk kjötsúpa 18.05.2019 – 08.092019

Sýningin Íslensk kjötsúpa setur ljósmyndarann Kristjón Haraldsson í sviðsljósið jafnframt því sem athygli er beint að verklagi, úrvinnslu og stíl í ljósmyndun. Samhliða því sem aðferðir í ljósmyndun eru teknar til skoðunar er sjónum beint að ljósmyndaranum á bak við myndavélina og þannig er dregin upp mynd af Kristjóni, fjölskyldu hans og íslensku þjóðinni á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.