Jack Latham – Mál 214

Þann 14. september s.l. var opnuð sýning Jack Latham – Mál 214 í Grófarsal Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Sýningin fjallar um eitt stærsta og umdeildasta sakamál Íslandssögunnar, Guðmundar- og Geirfinnsmálið.

Breski ljósmyndarinn Jack Latham hefur kynnt sér málið frá ýmsum hliðum þess, hitt að máli marga þá sem kom við sögu og ljósmyndað sögusvið rannsóknarinnar. Efniviður sýningarinnar spannar allt frá lögregluskýrslum til samsæriskenninga, réttarvísinda og hugtaksins minnisvafaheilkenni. Latham setur fram spurningar um sönnunargögn og sannleika, vissu og óvissu, einkum út frá minningu og ljósmyndinni sem miðli.

Á sýningunni er ekki gerð tilraun til að leysa málið eða leiða fram nýjar staðreyndir. Þess í stað hefur höfundur hennar blandað saman eigin ljósmyndum við eldri myndir og gögn úr rannsókn málsins til að kanna eðli ljósmyndarinnar og spyrja grundvallarspurninga um samband hennar við sannleika og hlutlægni.

Jack Latham hlaut ljósmyndabókaverðlaunin Bar Tur Photobook Award árið 2015. Bók hans Sugar Paper Theories, hefur að geyma sama efni og sýningin, en bókin var gefin út sameiginlega af Here Press og The Photographers.

Nánar má lesa um sýninguna á http://borgarsogusafn.is/is/ljosmyndasafn-reykjavikur/syningar/jack-latham-mal-214