Hringur, ferhyrningur og lína – sýningaropnun á Kjarvalsstöðum

Á Safnanótt, föstudaginn 8. febrúar kl. 17.00 verður opnuð sýning á verkum myndlistamannsins Eyborgar Guðmundsdóttur (1924 – 1977) í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum. Sýningin nefnist Hringur, ferhyrningur og lína sem er tilvitnun í Eyborgu sjálfa þegar hún lýsir frumformum geómetrískar listar.

Eyborg Guðmundsdóttir var afkastamikill myndlistamaður þrátt fyrir stuttan feril. Hún vann að myndlist og hönnun í um 16 ár og eftir hana liggja á annað hundrað listaverk. Eyborg var sérstæður listamaður í íslenskum listheimi. Verk hennar byggja á fyrirmyndum geómetrískrar afstraktlistar þar sem sjónræn áhrif reglubundinna forma eru megináherslan, stíll sem kenndur er við “op-list.”

Sýningin á Kjarvalsstöðum er sett upp í lauslegri tímaröð. Þar eru um eitt hundrað verk sýnd, Þau samanstanda af málverkum, plexiglermyndum, klippimyndum, lágmyndum og hönnun. Verkin, sem valin hafa verið af kostgæfni af sýningastjórum, eru flest í einkaeign og því gefst einstakt tækifæri til þess að sjá þau á sýningunni.

Sýningastjórar eru tveir, Heba Helgadóttir og Ingibjörg Sigurjónsdóttir. Heba hefur lagt stund á nám í listfræði við Háskóla Íslands og rannsakað verk Eyborgar fyrir BA ritgerð sína. Ingibjörg lauk BA námi frá myndlistadeild Listaháskóla Íslands árið 2010 og hefur tekið þátt í sýningum, gjörningjum og öðrum verkefnum bæði á Íslandi og erlendis. Hún er ein af aðstandendum Kling og Bang gallerís.