Hafnarhús: Tveir fyrir einn í september

Í september geta Menningarkorthafar tekið með sér gest í Listasafn Reykjavíkur, Hafnarhús, þar sem getur að líta þrjár sýningar:

Erró: Heimsferð Maós

Á árunum 1972 til 1980 málaði Erró seríuna Chinese Paintings, meira en 130 málverk sem segja sögu hins mikla leiðtoga sem fer sigurför um heiminn, en í rauninni fór Maó aðeins tvívegis til útlanda, í bæði skiptin á flokksþing Kommúnistaflokksins í Moskvu.

Það var kínverska serían sem gerði Erró þekktan í alþjóðlegu samhengi. Sýningin í Hafnarhúsi hefur að geyma málverk, samklippur og grafíkmyndir úr sameign Listasafns Reykjavíkur.

D39 Emma Heiðarsdóttir: Jaðar

Í sýningunni setur listamaðurinn fram vangaveltur um stund og stað myndlistar. Hvar og hvenær hefst listupplifun, hve lengi varir hún og hvert ferðast hún með áhorfendum?

Emma Heiðarsdóttir er 39. listamaðurinn til að sýna í sýningarröð Listasafns Reykjavíkur í D-sal.

Tilvist mannsins: Skissa að íslenskri samtímalist [III]

Á sýningunni er úrval verka sem sýna ólíkar leiðir listamanna til að kanna hvað felst í því að vera mannlegur. Í verkunum er staldrað við líkamlega og sálfræðilega eiginleika, viðburði og aðstæður sem segja má að séu grundvallaþættir tilverunnar.

Sýningin er þriðja skissan að íslenskri samtímalistasögu sem byggist á verkum úr safneign Listasafns Reykjavíkur.

Nánari upplýsingar um sýningarnar má finna hér