Friðarsúlan og önnur listaverk í Viðey

Kveikt var á Friðarsúlunni í Viðey í 13. sinn miðvikudaginn 9. október á fæðingardegi Johns Lennons og mun hún varpa ljósi upp í himininn til 8. desember sem er dánardægur hans.

Handhafar Menningarkorts Reykjavíkur fá 10% afslátt af fargjaldi Viðeyjarferjunnar og hvetjum við korthafa til að heimsækja eyjuna, njóta náttúrunnar og skoða listaverkin sem þar er að sjá. Auk Friðarsúlu Yoko Ono má þar finna:

  • Áletraða steina; á Vestureyjunni má finna þrjá jarðfasta steina með áletrunum. Ekki er í öllum tilvikum vitað hverjir voru þar að verki eða hver tilgangurinn er.
  • Áfangar; umhverfislistaverk eftir bandaríska myndhöggvarann Richard Sterra (f. 1939). Verkið leggur undir sig alla Vesturey og setur sterkan svip á ásýnd hennar og umhverfi. Listaverkið er úr stuðlabergi og vísar þannig í jarðsögu eyjarinnar og undirstrikar um leið órjúfanleg tengsl þess við umhverfi sitt.
  • Maríulíkneski; Árið 2000 var reist Maríulíkneski á Kvennagönguhól til minningar um 1000 ára kristnitöku á Íslandi, en María mey var verndardýrlingur Viðeyjarklausturs.

Viðeyjarferjan siglir út í eyju samkvæmt vetraráætlun frá 1. október til 14. maí. Siglt er um helgar og fer fyrsta ferja frá Skarfabakka kl. 13.15. og síðasta sigling er frá Viðey kl. 16.30. Nánari upplýsingar um ferðir og miðabókanir má finna hér.