Borgarsögusafn Reykjavíkur opnar á ný!

Borgarsögusafn og allir fimm frábæru staðir þess hafa opnað á ný eftir að hafa verið lokaðir um margra vikna skeið vegna samkomutakmarkana. Opnunartíminn safnanna er óbreyttur nema á Ljósmyndasafninu en þar verður opið sem hér segir: Virkir dagar 12-17, laugardagar 13-16 og lokað á sunnudögum. Þá hefjast siglingar út í Viðey samkvæmt tímatöflu helgina 21.-22. nóvember. Fjöldatakmörkunum og sóttvörnum er fylgt í hvívetna og grímuskylda er á safninu. Upplýsingar um sýningar og listaverk á Borgarsögusafni má finna á eftirfarandi síðum:

Árbæjarsafn

Landnámssýningin

Ljósmyndasafn

Sjóminjasafnið

Listaverkin í Viðey

Í nóvember fá Menningarkorthafar 2 fyrir 1 á Sjóminjasafnið.*

Um þessar mundir gefur að líta tvær glæsilegar sýningar á Sjóminjasafninu.

FISKUR & FÓLK

Sýningin Fiskur & Fólk: sjósókn í 150 ár fjallar um sögu fiskveiða á Íslandi, frá því árabátar viku fyrir stórskipaútgerð á síðustu áratugum 19. aldar og allt fram yfir aldamótin 2000. Þessi margslungna saga er sögð frá
sjónarhóli stærsta útgerðarbæjar landsins, Reykjavíkur. Umgjörðin á Sjóminjasafninu við Grandagarð er viðeigandi, en safnhúsið hýsti áður blómlega fiskvinnslu. Markmiðið er að sýningin sé bæði fræðandi og skemmtileg og höfði jafnt til þeirra sem þekkja vel til sjósóknar og sögu hennar og hinna sem aldrei hafa á sjó komið.

MELCKMEYT 1659 – FORNLEIFARANNSÓKN NEÐANSJÁVAR

Melckmeyt (Mjaltastúlkan) var hollenskt kaupskip sem fórst við Flatey í október 1659. Meira en 300 árum síðar fundu kafarar flak skipsins og er það elsta skipsflak sem vitað er um við Íslandsstrendur. Á sýningunni fá gestir innsýn í rannsóknaraðferðir fornleifafræðinnar og fjallað verður um valda þætti úr sögu skipsins, áhafnar og verslunar á 17. öld. Einnig getur að líta nokkra þeirra gripa sem fundust við rannsóknina.

*Menningarkorthafar geta tekið með sér einn gest í hvert skipti sem þeir heimsækja safnið í nóvember.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Borgarsögusafns Reykjavíkur.