Bíó Paradís fagnar 10 ára afmæli í dag og opnar á ný á föstudaginn!

Þann 15. september 2010 opnaði Bíó Paradís dyrnar í fyrsta sinn fyrir menningarþyrstum kvikmyndaunnendum. Mikið hefur gengið á á þeim áratug sem runninn er til sjávar síðan, haldnar hafa verið kvikmyndahátíðir, alls konar kvikmyndaviðburðir, tónleikar, listgjörningar, partísýningar, svartir sunnudagar og að sjálfsögðu verið sýnt allt það besta sem íslensk og alþjóðleg kvikmyndagerð hefur uppá að bjóða! 

Árið 2020 hefur þó án efa verið með þeim viðburðarmeiri í sögu Bíó Paradísar. Eftir að hafa þurft að loka bíóinu í nokkra mánuði eru þau gríðarlega spennt að mæta aftur fílefld til leiks föstudaginn 18. september, með uppfært húsnæði og tækjabúnað og stútfulla dagskrá af nýjum og spennandi myndum og viðburðum! 

Við minnum á að handhafar Menningarkortsins fá 25% afslátt af miðaverði hjá Bíó Paradís!

Skjaldborg – í borg – í paradís!

Skjaldborg

Skjaldborg—hátíð íslenskra heimildamynda verður haldin í samstarfi við Bíó Paradís helgina 18.-20. september 2020. Hátíðin er nú haldin í fyrsta sinn í höfuðstaðnum og hreiðrar um sig í Bíó Paradís—Heimili kvikmyndanna við Hverfisgötu.

Miðasala fer fram á vef Bíó Paradísar og allar helstu upplýsingar um Skjaldborg í borg má finna hérStakir bíómiðar kosta 1.690 kr. og Skjaldborgarpassi sem gildir á allar sýningar hátíðarinnar kostar 8.900 krHægt verður að nálgast Skjaldborgarpassa frá kl. 16:00 þann 18. september í afgreiðslu Bíó Paradísar. Handhafar passa þurfa að leysa út miða á sýningar fyrirfram í miðasölu Bíó Paradís.

Dagskrá hátíðarinnar er með glæsilegasta móti og má finna á vef bíó paradísar hér. Q&A er haldið eftir allar myndir þar sem höfundar og aðstandendur eru viðstaddir. Megi Skjaldborgarandinn svífa yfir nýopnaðri Paradís!

The Specials – Hjartnæm og sönn!

Glænýtt gaman-drama frá leikstjórum The Intouchables!!

Frá teyminu sem færði okkur The Intouchables kemur glæný hjartnæm gaman-dramamynd sem þú vilt ekki missa af, með Vincent Cassel (Black Swan, Westworld) í aðalhlutverki.  Myndin fjallar um mann sem vinnur að liðveislu hóps ungmenna með sérlega erfiða einhverfu. Eric Toledano og Olivier Nakache slógu í gegn um allan heim með myndinni The Intouchables, THE SPECIALS er byggð á þeirra eigin reynslu og nálgast viðfangsefnið á raunsæjan og virðingarfullan hátt. Mynd sem lætur engan ósnortinn!

About endlessness – Roy Anderson!

Nýjasta meistaraverk Roy Anderson í Bíó Paradís!
Nýjasta mynd sænska meistarans Roy Andersson fer með áhorfendur í dulmagnað ferðalag um mannlega tilveru, í allri sinni fegurð og ljótleika. Við fylgjum sögumanni í gegnum atburði, bæði sögulega og hversdagslega sem allir fá sömu vigt í þessari einstöku kvikmynd.

Anderson bregður upp svipmyndum af mannlegum augnablikum; ungt par flýtur í loftinu yfir stríðshrjáðri Köln, faðir á leið með dóttur sína í afmæli staldrar við til þess að reima skóinn hennar í rigningunni, táningstúlkur dansa fyrir utan kaffihús, sigraðir hermenn marsera í áttina að stríðsfangabúðunum. About Endlessness er bæði óður og harmakvein, óendanlega saga hinnar viðkvæmu tilveru. Sýnd til skiptis með íslenskum eða enskum texta!

Seberg – Kristen Stewart brillerar!

Spennandi og tilfinningarík sönn saga!
Benedict Andrews leikstýrir Kristen Stewart í þessari áhugaverðu mynd sem snertir á málefnum sem eiga svo sannarlega erindi í dag. Stewart hlaut eindóma lof gagnrýnenda fyrir frammistöðu sína, en hún þykir ein af áhugaverðustu leikkonum í bransanum um þessar mundir!

Byggð á sannsögulegum atburðum úr lífi bandarísku leikkonunnar og táknmynd Frönsku nýbylgjunnar, Jean Seberg. Seint á sjöunda áratugnum var hún undir smásjá Bandarísku alríkislögreglunnar vegna ástarsambands síns við mannréttindasinnann og Black Panther meðliminn Hakim Jamal.

Zieja – nýtt pólskt drama !

Áhrifamikil sannsöguleg kvikmynd!
Róttæki presturinn og mannvinurinn Jan Zieja hafði gríðarleg áhrif á baráttu verkafólks í Póllandi, auk þess sem hann bjargaði gyðingum undan nasistum í Seinni heimstyrjöldinni, enda hafði hann ávallt fimmta boðorðið að leiðarljósi.

Árið 1977 er hinn áttræði Zieja tekinn til yfirheyrslu af Pólsku öryggislögreglunni og við fáum að kynnast viðburðaríku lífi hans í gegnum endurlit þegar hann reynir að svara ágengum spurningum þeirra.

 

Kynntu þér nánar fjölbreytta dagskrá Bíó Paradís hér: https://bioparadis.is/vidburdir/