Ásmundur Sveinsson og Þorvaldur Skúlason: Augans börn 29.10.2016 – 01.05.2017

Síðastliðin laugardag, 29.10.2016, opnaði í Ásmundarsafni sýningin Ásmundur Sveinsson og Þorvaldur Skúlason: Augans börn. Á þessari sýningu má sjá verk eftir þá Ásmund Sveinsson (1893 – 1982) og Þorvald Skúlason (1906 – 1984) sem voru í hópi þeirra listamanna sem stöðugt voru að tileinka sér ný viðhorf innan myndlistarinnar um miðja síðustu öld. Margir íslenskir myndlistarmenn sóttu nám erlendis þar sem þeir kynntust nýjum framsæknum hugmyndum og tóku að færast nær stefnum nútímalistar með tilheyrandi formtilraunum. Sýningin er samstarf Listasafns Reykjavíkur og Listasafns Háskóla Íslands. Ásmundur og Þorvaldur lögðu báðir ríka áherslu á formrænt myndmál verka sinna og sóru sig þannig í ætt við móderníska hefð. Þeir gerðu sér góða grein fyrir sögulegu gildi efniviðarins og beindu sjónum sínum að efnislegum eigindum verkanna fremur en að líta á þau sem gáttir til ytra umhverfis. Þrátt fyrir að þeir veldu sér ólíka miðla voru Ásmundur og Þorvaldur að mörgu leyti hugmyndabræður og talaði Ásmundur um Þorvald sem sálufélaga sinn í myndlist. Enda þótt hægt sé að tímasetja nokkurn veginn hvenær Þorvaldur færði sig að öllu leyti yfir í óhlutbundið myndmál, þá eru mörkin engu að síður nokkuð óljós. Eins er í sjálfu sér ómögulegt að benda á það hvenær, Ásmundur sleit sig með öllu frá fígúrasjón í verkum sínum, hafi hann gert það á annað borð. Smám saman tók hið óhlutbundna myndmál völdin í verkum þeirra beggja. Myndirnar urðu sjálfstæð fyrirbæri og án vísana í hlutveruleikann. Ferill þeirra endurspeglar þannig móderníska framvindu sem stefndi frá viðteknum venjum og að markvissu samtali við samtímann. Sjá má nánari upplýsingar um sýninguna á vef Listasafns Reykjavíkur.

Hafi þig einhverntímann langað að fara aftur í tímann þá rætist sú ósk á Árbæjarsafni. Þar er allt eins og það var í gamla daga á Íslandi. Húsin þar eru mörg hver eldgömul og alveg síðan langamma var ung en svo eru sum húsin líka síðan afi var ungur og jafnvel pabbi og mamma…

Það getur verið stórskemmtilegt að fara í tímavél og horfa á afa og ömmu, pabba og mömmu og langafa og langömmu verða að krökkum aftur þegar þau koma á leikfangasýninguna með leikföngum frá síðustu hundrað árum eða svo þar sem má snerta allt og leika sér með dótið. Veist þú hvernig var leikið með legg og skel? Eða í Donkey Kong?

Ef veðrið er gott er líka hægt að fara út á tún fyrir framan húsið þar sem leikfangasýningin er til húsa og leika saman. Suma leiki kunna allir á öllum aldri, eins og Dimmalimm eða Brennó en aðra leiki geta fullorðnir og krakkar kennt hvort öðru. Fullorðnir kunna til dæmis sorglega fáa klappleiki.

Gaman er að skoða öll húsin og velta fyrir sér hvað var gert í hverju fyrir sig og fara svo í feluleik í en þá er betra að afmarka leitarsvæðið því annars gæti leikurinn dregist ansi mikið á langinn.
Í Árbæjarsafni er boðið upp á fjölda viðburða og sýninga, þar er til dæmis hægt að skoða og prófa gamlar kerrur, velta fyrir sér neyslu og nægjusemi í tengslum við sýninguna Neyzlan,

Prófið að finna svörin við þessum spurningum:
Var fólk minna í gamla daga? Hvað gátu margir búið í einu herbergi? Hvernig var haldið upp á afmæli? Hvað var hægt að fá í búðunum? Hvar fór fólk á klósettið? Hvernig burstaði það tennurnar? Hvað var hægt að gera þegar ekki var hægt að fara í tölvu eða síma? Hvernig horfði fólk á sjónvarpið? Áttu allir kisu? Þurftu krakkar að vinna? Hvar voru dýrin geymd?
Kakóbolli og vaffla með rjóma í Dillonshúsi er svo góður punktur yfir skemmtilegt i. Rjómi getur líka verið afskaplega skapandi, til dæmis þegar hann hittir nef, eigið eða annarra.