Árbæjarsafn: HEIMAt – tveir heimar

Þann 12.06.19 opnaði forseti Þýskalands sýninguna HEIMAt – tveir heimar í Kornhúsinu á Árbæjarsafni, en sýningin er gerð í samvinnu við Þýska sendiráðið á Íslandi.

Með sýningunni er því fagnað að í ár eru 70 ár liðin frá því að stór hópur Þjóðverja sigldi með strandferðaskipinu Esju, og öðrum skipum í kjölfarið, til Íslands. Ástæðan fyrir ferðum hópsins var sú að fólk vantaði í sveitir landsins vegna mikilla samfélagsbreytinga sem orðið höfðu eftir seinna stríð. Auglýst var eftir vinnuafli í Þýskalandi og svöruðu á fjórða hundrað manns kallinu og kom til starfa á íslenskum sveitabæjum. Um helmingur þeirra, mestmegnis konur, settist hér að.

Ljósmyndaverkefnið “HEIMAt” eftir Marzenu Skubatz er miðpunktur sýningarinnar og gefur það innsýn inn í líf núlifandi kvenna úr þessum hópi.