Tveir fyrir einn á Listasafn Reykjavíkur

Í desember fá Menningarkorthafar 2 fyrir 1 á Listasafn Reykjavíkur Hafnarhúsi og Kjarvalsstöðum.

Korthafar Menningarkortsins geta tekið með sér einn gest í hvert skipti sem þeir heimsækja Listasafn Reykjavíkur í desember. Við bjóðum gesti velkomna á Kjarvalsstaði og í Hafnarhús. Opnunartími er óbreyttur en tíu gestir geta verið í safnhúsunum í einu. Ásmundarsafn er lokað vegna breytinga.

Um þessar mundir gefur að líta frábærar sýningar í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsi og Kjarvalsstöðum.

Gilbert & George: THE GREAT EXHIBITION í Hafnarhúsinu er einn stærsti viðburður Listasafns Reykjavíkur árið 2020 og á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík. Listamannatvíeykið Gilbert & George hafa unnið saman í meira en fimm áratugi – einstök verk þar sem daglegt líf og myndlist sameinast í einu mengi. Þeir hafa haft mótandi áhrif á myndlist samtímans og eru þekktir fyrir að ryðja braut gjörningalistar og nálgast einkalíf sitt sem listaverk.

Sigurður Árni Sigurðsson: ÓraVídd á Kjarvalsstöðum. Sigurður Árni Sigurðsson á að baki áhugaverðan listferil og hefur hann útfært verk sín með fjölbreyttum hætti. Hann hefur alla tíð spunnið stef við málverkið og tekist á við eiginleika þess miðils. Verk hans fjalla um það hvernig við horfum á heiminn í kringum okkur, þau vekja spurningar um eðli og takmörk sjónsviðsins og hvernig það leggur grunn að heimsmynd okkar.

Við minnum á að Menningarkorthafar fá 10% fastan afslátt í Safnbúðum Reykjavíkur.

SAFNBÚÐIR eru starfræktar á öllum söfnum Listasafns Reykjavíkur og Borgarsögusafns Reykjavíkur. Þar má finna minjagripi tengda viðfangsefni safnanna, mikið úrval af bókum, íslenska hönnun og handverk, veggspjöld, afsteypur, listaverkabækur og eftirprentanir. Fjölbreytta hönnunarvöru, ásamt safn- og sýningartengdri vöru. Athugið að vöruúrvalið er mismunandi á milli safna.

Nánari upplýsingar um dagskrá má finna á heimasíðu Listasafns Reykjavíkur.