ÁRSKORT Á LISTASAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á þremur stöðum

Listasafn Reykjavíkur er lifandi og framsækinn vettvangur sem býður upp á fjölbreyttar sýningar á nútíma- og samtímalist, málverkum og skúlptúrum eftir virta íslenska og erlenda listamenn. Safnið er jafnframt vettvangur fyrir ungt og upprennandi hæfileikafólk.

ÁRSKORT Á BORGARSÖGUSAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á fimm einstökum stöðum

Borgarsögusafn Reykjavíkur er næststærsta safn landsins á eftir Þjóðminjasafninu. Hlutverk þess er að safna, skrásetja, varðveita og rannsaka menningarminjar sem eru einkennandi fyrir menningararf borgarinnar, og miðla sögu hennar og menningu frá landnámi til samtímans.

Borgarbókasafn Reykjavíkur er stærsta menningarstofnun borgarinnar. Þar er hægt að njóta fjölbreytts safnkosts og sækja innblástur í gegnum bókmenntir, listir og viðburði á vegum safnsins. Safnið er jafnframt vettvangur uppgötvunar og sköpunar með smiðjum og tilraunaverkstæðum þar sem tækniþekking og stafræn færni til framtíðar gegna lykilhlutverki.

Leikhús, söfn, sýningar, bíó, tónleikar, hátíðir og matur. Handhafar Menningarkorts Reykjavíkur njóta margvíslegra fríðinda hjá fjölmörgum samstarfsaðilum.

Í hverjum mánuði koma spennandi tilboð frá söfnum borgarinnar og samstarfsaðilum.

Tveir fyrir einn á Listasafn Reykjavíkur Kjarvalsstöðum í ágúst fyrir korthafa

Í ágúst geta korthafar boðið með sér á Kjarvalsstaði þar sem gefur að líta þrjár sýningar. 

William Morris: Alræði fegurðar! 30.06.2019 – 06.10.2019

"Ég vil ekki list fyrir fáa fremur en menntun fyrir fáa eða frelsi fyrir fáa." - William Morris, 1877.

Morris (1834-1896) var listamaður, hugsuður, rithöfundur og samfélagsrýnir og hafði mikil áhrif á samtíma sinn og skildi eftir sig sjónrænan menningararf og hugmyndafræði sem hafa haft áhrif allt til okkar daga.

Tengsl Morris við Ísland eru áhugavert rannsóknarefni en hann ferðaðist hingað tvisvar á starfsævi sinni, árið 1871 og árið 1873. Morris varð fyrir miklum áhrifum í Íslandsheimsóknum sínum, heillaðist bæði af menningu og náttúru. Heimildir herma að hann hafi ætíð upplifað sig sem mann norðursins og lýsti það sér í óstöðvandi áhuga hans á íslenskum bókmenntum en ekki síður í ófáguðu útliti.

Jóhannes S. Kjarval: Get ekki teiknað bláklukku 25.05.2019 – 05.01.2020

Listamaðurinn Eggert Pétursson (f. 1956) hefur sett saman sýningu á blómaverkum Jóhanners S. Kjarvals. Verkunum er raðað í þrjá meginflokka í þrjá sali sýningarinnar:

Í miðsalnum er blómalandslag og myndir úr íslenskri villiflóru. Þar eru verk þar sem Kjarval tekst fyrst á við villt blóm, aðallega lyng. Í rissi og pári Kjarvals er oft hægt að þekkja algengar blómategundir og þannig skissur getur að líta í sýningarkössum. Landslag og blómapár fléttast saman í verkum Kjarvals og á síðustu árum ferilsins málar hann hugarlandslag, gráa veröld sem blóm lýsa upp.
Í norðursalnum eru verk sem kalla mætti hátíðarblóm, það eru afskorin blóm, pottablóm og blómakörfur, verk sem Kjarval gerði til gjafa, bæði frá sjálfum sér eða fyrir aðra að gefa.
Í suðursalnum eru síðan blómafantasíur Kjarvals, þar sem andlit og verur fléttast saman við blómapár í málverkum, teikningum og rissi.

Sölvi Helgason: Blómsturheimar 25.05.2019 – 06.10.2019

Sölvi Helgason eða Sólon Íslandus eins og hann kallaði sig líka, er tvímælalaust einn af áhugaverðustu alþýðulistamönnum sem þjóðin hefur alið.Fjölskrúðugt blómaflúr er aðaleinkenni mynda Sölva og notaði hann margoft sömu blómamynstrin, annaðhvort sem aðalatriði myndflatarins eða sem bakgrunn andlitsmynda.
Sölvi var einnig sískrifandi, bæði sagnfræðilega texta, ljóð og hugleiðingar. Eru bakhliðar mynda hans oft þaktar örsmárri handskrift og pappírinn nýttur til hins ýtrasta.Á sýningunni Blómsturheimar verða sýnd 16 áður óþekkt verk eftir Sölva Helgason sem varðveist hafa í Danmörku. Er þessi mikilvægi íslenski menningararfur gjöf Ingrid Nielsen til íslensku þjóðarinnar.

*Menningarkorthafar geta tekið með sér einn gest í hvert skipti sem þeir heimsækja safnið í ágúst.

Listasafn Íslands – tilboð í ágúst

Í ágúst fá Menningarkorthafar 20% afslátt af nýrri gjafavöru í safnbúð Listasafns Íslands við Tjörnina.

Listasafn Íslands - safnið við Tjörnina - er aðili að Menningarkortinu og býður Menningarkorthöfum að taka með sér gest á safnið allt árið um kring (tveir miðar á verði eins).

Nú er sumri tekið að halla og af því tilefni býður safnið upp á nýjar minnisbækur, bakka, púsl og fleira fallegt með myndum af verkum úr safneign Listasafnsins með 20% kynningarafslætti.

Nýtt Menningarkort 67+

Þann 1. júlí s.l. tók ný gjaldskrá gildi á söfnum Reykjavíkurborgar sem felur í sér að allir fullorðnir gestir greiða sama gjald inn á söfnin óháð aldri. Samhliða breyttu fyrirkomulagi var ákveðið að kynna til leiks sérstök Menningarkort fyrir 67 ára og eldri á afar hagstæðum kjörum.

Nýja Menningarkortið fæst með 70% afslætti, nú 1.800 kr., eða á sama verði og eitt stakt gjald inn á söfnin, og endurnýjun verður gjaldfrjáls að ári.

Það er einlæg ósk okkar að þeir sem eru 67 ára og eldri nýti sér það mikla menningarframboð sem borgin hefur upp á að bjóða í söfnum sínum með rauða Menningarkortinu. Við munum kappkosta að ná til hópsins með sérstökum tilboðum, viðburðum og uppákomum sem beint verður að handhöfum rauða kortsins, og vonumst við til þess að sjá fjölgun í hópi gesta í þessum hópi.

Kynning verður haldin á nýja kortinu á Kjarvalsstöðum miðvikudaginn 10. júlí kl. 14.00. Kortið verður selt með afslætti og mun kosta 1.500 kr. á meðan á kynningunni stendur, boðið verður upp á leiðsögn um sýningar á verkum Sölva Helgasonar og William Morris, nýir korthafar fá fría köku með kaffinu á kaffihúsinu á Kjarvalsstöðum og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs og Gísli Jafetsson framkvæmdastjóri félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni munu ávarpa gesti.

Ljósmyndasafn Reykjavíkur – Man ég fjallið

Man ég fjallið er yfirskrift sýningar sem opnuð verður fimmtudaginn 13. júní í Skoti Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Verkin á sýningunni eru eftir Lauru Valentino. Sýningin stendur til 21. ágúst 2019.

"Man ég fjallið er framhald af verkinu Andlit jarðar, eða öllu heldur minning mín af vinnslu þess verkefnis. Með því að endurvinna ljósmyndir sem ég tók fyrir nokkrum árum öðluðust þær sjálfstætt líf og fengu á sig draumkenndan blæ. Landslag líkt og manneskjur er síbreytilegt, erfitt er að staðsetja hvort tveggja í ákveðnu augnabliki. Þættir eins og veðurfar, árstíðir, birta, náttúruöfl og athafnir manneskjunnar hafa áhrif á skynjun okkar á því sem fyrir augu ber." - Laura Valentino

Laura Valentino kannar fegurð og munúð í sígildu myndefni eins og fólki og landslagi. Hún notar hefðbundnar ljósmyndunaraðferðir til að fanga hið eilífa og almenna í hversdagslegum viðfangsefnum. Með því að beita aðferðum hliðrænnar (e. analog) ljósmyndunar myndast fjarlægð milli viðfangsins og túlkunar á því. Útkoman vekur upp minningar og tilfinningar sem endurspegla framrás tímans.