ÁRSKORT Á LISTASAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á þremur stöðum

Listasafn Reykjavíkur er lifandi og framsækinn vettvangur sem býður upp á fjölbreyttar sýningar á nútíma- og samtímalist, málverkum og skúlptúrum eftir virta íslenska og erlenda listamenn. Safnið er jafnframt vettvangur fyrir ungt og upprennandi hæfileikafólk.

ÁRSKORT Á BORGARSÖGUSAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á fimm einstökum stöðum

Borgarsögusafn Reykjavíkur er næststærsta safn landsins á eftir Þjóðminjasafninu. Hlutverk þess er að safna, skrásetja, varðveita og rannsaka menningarminjar sem eru einkennandi fyrir menningararf borgarinnar, og miðla sögu hennar og menningu frá landnámi til samtímans.

Borgarbókasafn Reykjavíkur er stærsta menningarstofnun borgarinnar. Þar er hægt að njóta fjölbreytts safnkosts og sækja innblástur í gegnum bókmenntir, listir og viðburði á vegum safnsins. Safnið er jafnframt vettvangur uppgötvunar og sköpunar með smiðjum og tilraunaverkstæðum þar sem tækniþekking og stafræn færni til framtíðar gegna lykilhlutverki.

Leikhús, söfn, sýningar, bíó, tónleikar, hátíðir og matur. Handhafar Menningarkorts Reykjavíkur njóta margvíslegra fríðinda hjá fjölmörgum samstarfsaðilum.

Í hverjum mánuði koma spennandi tilboð frá söfnum borgarinnar og samstarfsaðilum.

Tveir fyrir einn á Kjarvalsstaði í september fyrir korthafa!

Í september geta Menningarkorthafar boðið gesti með sér á Kjarvalsstaði.

Um þessar mundir gefur að líta tvær sýningar á Kjarvalsstöðum.

Jóhannes S. Kjarval: Hér heima

Í landslagsmyndum sínum birti Kjarval íslenska náttúru á gjörólíkan hátt en áður hafði tíðkast og kenndi landsmönnum að horfa á landið nýjum augum og meta fegurðina sem býr í hrauninu og mosanum við fætur okkar. Kjarval skipar stóran sess í íslenskri menningar- og listasögu og hefur veitt síðari kynslóðum listamanna ómældan innblástur. Kjarval málaði víða um land; á Þingvöllum og öðrum stöðum í nágrenni Reykjavíkur, á Snæfellsnesi, Skagaströnd, Austfjörðum og víðar.

Allt sem sýnist – Raunveruleiki á striga 1970-2020

Fjölmargir listamenn sækjast eftir því að ná fram ímynd raunsæis í verkum sínum. Til að ná árangri tileinka þeir sér handbragð sem krefst bæði þjálfunar og tækni auk þess sem þeir gefa ýmsum smáatriðum gaum. Þegar vel tekst til vekja verk þeirra undrun og ánægju áhorfenda sem trúa vart sínum eigin augum. En er allt sem sýnist í málverkum og öðrum verkum sem unnin eru í raunsæislegum anda?

Þegar horft er yfir hálfrar aldar sögu íslenskra raunsæismálverka kemur í ljós að listamenn færa sér þessi stílbrigði í nyt á afar ólíkum forsendum. Allt frá því að popplistin kom fram á sjónarsviðið á sjöunda áratugnum til hinnar stafrænu byltingar samtímans má rekja ótal þræði með viðkomu í natúralisma, ljósmyndaraunsæi, ofurraunsæi, töfraraunsæi og víðar. Viðfangsefnin eru af ýmsum toga; náttúran, manneskjan og nærumhverfi hennar, kyrralíf og frásagnir, miðlun myndmáls og eðli sjónsviðsins. Þar skarast gamalkunn mörk há- og lágmenningar, handverks og inntaks, listar og listlíkis. Raunveruleikinn tekur á sig ýmsar myndir þegar hann er dreginn upp á striga.

 

 

 

 

 

Tveir fyrir einn á Ásmundarsafn í ágúst fyrir korthafa

Í ágúst geta Menningarkorthafar boðið gesti með sér á Ásmundarsafn.

Menningarkorthafar geta tekið með sér einn gest í hvert skipti sem þeir heimsækja Ásmundarsafn í ágúst.

Ásmundarsafn er helgað verkum myndhöggvarans Ásmundar Sveinssonar (1893-1982) og var safnið formlega opnað árið 1983. Safnið er til húsa í einstæðri byggingu sem var heimili og vinnustofa listamannsins.

Í Ásmundarsafni er ávallt sýning á verkum Ásmundar en hann ánafnaði Reykjavíkurborg stóru safni listaverka sinna auk byggingarinnar eftir sinn dag. Þá eru reglulega haldnar sýningar á verkum annarra listamanna í safninu sem hafa gjarnan vísun í list Ásmundar.

Ásmundur var einn af frumkvöðlum höggmyndalistar hér á landi og hannaði bygginguna að mestu leyti sjálfur á árunum 1942-1959. Hann byggði meðal annars bogalaga byggingu aftan við húsið sem var bæði hugsuð sem vinnustofa og sýningarsalur. Mannfreð Vilhjálmsson arkitekt hannaði tengibygginguna sem tengir saman aðalhúsið og bogabygginguna. Formhugmyndir hússins eru sóttar til Miðjarðarhafsins, í kúluhús Miðausturlanda og píramída Egyptalands.

Í garðinum er að finna stækkanir og afsteypur af verkum Ásmundar, en hann kom mörgum þeirra þar fyrir sjálfur.

Einnig stendur yfir fjölskyldusýningin Leikum og Lærum. Þessi skemmtilega þátttökusýningu hefur notið mikilla vinsælda og býður uppá einstakt tækifæri til að búa til minningar og leika og læra saman á eftirminnilegan hátt.

 

 

Bíó Paradís fagnar 10 ára afmæli í dag og opnar á ný á föstudaginn!

Þann 15. september 2010 opnaði Bíó Paradís dyrnar í fyrsta sinn fyrir menningarþyrstum kvikmyndaunnendum. Mikið hefur gengið á á þeim áratug sem runninn er til sjávar síðan, haldnar hafa verið kvikmyndahátíðir, alls konar kvikmyndaviðburðir, tónleikar, listgjörningar, partísýningar, svartir sunnudagar og að sjálfsögðu verið sýnt allt það besta sem íslensk og alþjóðleg kvikmyndagerð hefur uppá að bjóða! 

Árið 2020 hefur þó án efa verið með þeim viðburðarmeiri í sögu Bíó Paradísar. Eftir að hafa þurft að loka bíóinu í nokkra mánuði eru þau gríðarlega spennt að mæta aftur fílefld til leiks föstudaginn 18. september, með uppfært húsnæði og tækjabúnað og stútfulla dagskrá af nýjum og spennandi myndum og viðburðum! 

Við minnum á að handhafar Menningarkortsins fá 25% afslátt af miðaverði hjá Bíó Paradís!

Skjaldborg - í borg - í paradís!

Skjaldborg

Skjaldborg—hátíð íslenskra heimildamynda verður haldin í samstarfi við Bíó Paradís helgina 18.-20. september 2020. Hátíðin er nú haldin í fyrsta sinn í höfuðstaðnum og hreiðrar um sig í Bíó Paradís—Heimili kvikmyndanna við Hverfisgötu.

Miðasala fer fram á vef Bíó Paradísar og allar helstu upplýsingar um Skjaldborg í borg má finna hérStakir bíómiðar kosta 1.690 kr. og Skjaldborgarpassi sem gildir á allar sýningar hátíðarinnar kostar 8.900 krHægt verður að nálgast Skjaldborgarpassa frá kl. 16:00 þann 18. september í afgreiðslu Bíó Paradísar. Handhafar passa þurfa að leysa út miða á sýningar fyrirfram í miðasölu Bíó Paradís.

Dagskrá hátíðarinnar er með glæsilegasta móti og má finna á vef bíó paradísar hér. Q&A er haldið eftir allar myndir þar sem höfundar og aðstandendur eru viðstaddir. Megi Skjaldborgarandinn svífa yfir nýopnaðri Paradís!

The Specials - Hjartnæm og sönn!

Glænýtt gaman-drama frá leikstjórum The Intouchables!!

Frá teyminu sem færði okkur The Intouchables kemur glæný hjartnæm gaman-dramamynd sem þú vilt ekki missa af, með Vincent Cassel (Black Swan, Westworld) í aðalhlutverki.  Myndin fjallar um mann sem vinnur að liðveislu hóps ungmenna með sérlega erfiða einhverfu. Eric Toledano og Olivier Nakache slógu í gegn um allan heim með myndinni The Intouchables, THE SPECIALS er byggð á þeirra eigin reynslu og nálgast viðfangsefnið á raunsæjan og virðingarfullan hátt. Mynd sem lætur engan ósnortinn!

About endlessness - Roy Anderson!

Nýjasta meistaraverk Roy Anderson í Bíó Paradís!
Nýjasta mynd sænska meistarans Roy Andersson fer með áhorfendur í dulmagnað ferðalag um mannlega tilveru, í allri sinni fegurð og ljótleika. Við fylgjum sögumanni í gegnum atburði, bæði sögulega og hversdagslega sem allir fá sömu vigt í þessari einstöku kvikmynd.

Anderson bregður upp svipmyndum af mannlegum augnablikum; ungt par flýtur í loftinu yfir stríðshrjáðri Köln, faðir á leið með dóttur sína í afmæli staldrar við til þess að reima skóinn hennar í rigningunni, táningstúlkur dansa fyrir utan kaffihús, sigraðir hermenn marsera í áttina að stríðsfangabúðunum. About Endlessness er bæði óður og harmakvein, óendanlega saga hinnar viðkvæmu tilveru. Sýnd til skiptis með íslenskum eða enskum texta!

Seberg - Kristen Stewart brillerar!

Spennandi og tilfinningarík sönn saga!
Benedict Andrews leikstýrir Kristen Stewart í þessari áhugaverðu mynd sem snertir á málefnum sem eiga svo sannarlega erindi í dag. Stewart hlaut eindóma lof gagnrýnenda fyrir frammistöðu sína, en hún þykir ein af áhugaverðustu leikkonum í bransanum um þessar mundir!

Byggð á sannsögulegum atburðum úr lífi bandarísku leikkonunnar og táknmynd Frönsku nýbylgjunnar, Jean Seberg. Seint á sjöunda áratugnum var hún undir smásjá Bandarísku alríkislögreglunnar vegna ástarsambands síns við mannréttindasinnann og Black Panther meðliminn Hakim Jamal.

Zieja - nýtt pólskt drama !

Áhrifamikil sannsöguleg kvikmynd!
Róttæki presturinn og mannvinurinn Jan Zieja hafði gríðarleg áhrif á baráttu verkafólks í Póllandi, auk þess sem hann bjargaði gyðingum undan nasistum í Seinni heimstyrjöldinni, enda hafði hann ávallt fimmta boðorðið að leiðarljósi.

Árið 1977 er hinn áttræði Zieja tekinn til yfirheyrslu af Pólsku öryggislögreglunni og við fáum að kynnast viðburðaríku lífi hans í gegnum endurlit þegar hann reynir að svara ágengum spurningum þeirra.

 

Kynntu þér nánar fjölbreytta dagskrá Bíó Paradís hér: https://bioparadis.is/vidburdir/

 

 

Leiðsögn um rúst landnámsskála

Föstudaginn 18. september n.k. kl. 12:10-13:00 á Landnámssýningunni í Reykjavík verður leiðsögn um rúst landnámsskála. Þar fer fram föstudagsflétta Borgarsögusafns. Mjöll Snæsdóttir fornleifafræðingur fer með gesti um rúst landnámsskála frá 10. öld sem fannst árið 2001 og er varðveittur á sínum upprunalegum stað. Norðan við skálann fannst veggjarbútur sem er ennþá eldri, eða síðan fyrir 871 og er hann meðal elstu mannvistarleifa sem fundist hafa á Íslandi. Mun Mjöll segja frá uppgreftrinum og fornleifarannsókninni í kringum hann. Mjöll, ásamt Orra Vésteinssyni, hóf fornleifarannsóknina í Aðalstræti 16 en uppgraftarstjóri var Howell Magnus Roberts. Rannsóknin var gerð síðla árs 2000 en gröftur hófst á meginhluta svæðisins snemma árs 2001. Tveimur árum síðar var grafinn upp annar hluti sem ekki var áður hægt að komast að og sá Mjöll að mestu um þann hluta. Vitað var að minjar frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar myndu leynast undir húsi númer 16 vegna þess að á árunum 1971-1975 höfðu farið fram fornleifarannsóknir sem sænski fornleifafræðingurinn Else Nordahl stjórnaði, en þá var grafið á nokkrum lóðum sem stóðu auðar og tók Mjöll þátt í þeim rannsóknum sem ungur námsmaður. Það má því segja að Mjöll eigi all langa fortíð í undirheimum miðborgarinnar! Mjöll Snæsdóttir hefur starfað við fornleifarannsóknir og uppgröft víða um land ásamt því að hafa unnið á Árbæjarsafni, Þjóðminjasafni og hjá Fornleifastofnun Íslands. Einnig var hún ritstjóri Árbókar hins íslenska fornleifafélags í allmörg ár. Föstudagsfléttan er viðburðaröð Borgarsögusafns þar sem fjölbreyttum sjónarhornum er fléttað saman við sýningar og starfsemi safnsins.

 

Leiðsögnin er ókeypis og allir eru velkomnir sem lengi sem húsrúm, fjarlægðarmörk og fjöldatakmarkanir leyfa.