ÁRSKORT Á LISTASAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á þremur stöðum

Listasafn Reykjavíkur er lifandi og framsækinn vettvangur sem býður upp á fjölbreyttar sýningar á nútíma- og samtímalist, málverkum og skúlptúrum eftir virta íslenska og erlenda listamenn. Safnið er jafnframt vettvangur fyrir ungt og upprennandi hæfileikafólk.

ÁRSKORT Á BORGARSÖGUSAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á fimm einstökum stöðum

Borgarsögusafn Reykjavíkur er næststærsta safn landsins á eftir Þjóðminjasafninu. Hlutverk þess er að safna, skrásetja, varðveita og rannsaka menningarminjar sem eru einkennandi fyrir menningararf borgarinnar, og miðla sögu hennar og menningu frá landnámi til samtímans.

Borgarbókasafn Reykjavíkur er stærsta menningarstofnun borgarinnar. Þar er hægt að njóta fjölbreytts safnkosts og sækja innblástur í gegnum bókmenntir, listir og viðburði á vegum safnsins. Safnið er jafnframt vettvangur uppgötvunar og sköpunar með smiðjum og tilraunaverkstæðum þar sem tækniþekking og stafræn færni til framtíðar gegna lykilhlutverki.

Leikhús, söfn, sýningar, bíó, tónleikar, hátíðir og matur. Handhafar Menningarkorts Reykjavíkur njóta margvíslegra fríðinda hjá fjölmörgum samstarfsaðilum.

Í hverjum mánuði koma spennandi tilboð frá söfnum borgarinnar og samstarfsaðilum.

Maítilboð – tveir fyrir einn á Sjóminjasafnið í Reykjavík

Í maí geta Menningarkorthafar boðið með sér gestum á Sjóminjasafnið í Reykjavík* þar sem standa yfir tvær sýningar:

Fiskur og fólk – sjósókn í 150 ár

Á sýningunni er fjallað um sögu fiskveiða á Íslandi, frá því að árabátarnir viku fyrir stórskipaútgerð á síðustu áratugum 19. aldar og fram að aldamótunum 2000. Sagan er sögð frá sjónarhóli stærsta útgerðarbæjar landsins, Reykjavíkur, og sett fram á lifandi hátt með gripum og textum, myndum og leikjum.

Melckmeyt 1659 – fornleifarannsóknir neðjansjávar

Meira en 300 árum eftir að kaupskipið Melckmeyt strandaði við Íslandsstrendur fundu kafarar flak þess. Árið eftir var í fyrsta sinn framkvæmd víðtæk rannsókn á fornminjum neðansjávar við Ísland.

Á sýningunni fá gestir innsýn í rannsóknaraðferðir fornleifafræðinnar og fjallað verður um valda þætti úr sögu skipsins, áhafnar þess og verslunar á 17. öld. Einnig getur að líta nokkra þeirra gripa sem fundust við rannsóknina.

*Korthafar geta boðið með sér einum gesti í hvert skipti sem þeir heimsækja safnið í maí

Hvalasafnið – Whales of Iceland

Samstarfsaðili - föst fríðindi fyrir korthafa

Hvalasýningin á Fiskislóð er stærsta sýning sinnar tegundar í Evrópu og mögulega heiminum öllum. Markmið hennar er að veita gestum einstaka upplifun og innsýn inn í stórfenglegan heim hvalanna.

Sýningin samanstendur af 23 hvalalíkönum af hinum ýmsu tegundum sem hafa fundist í hafinu í kringum Ísland. Þar er að finna 25 metra langa steypireið, búrhval og Íslandssléttbak svo fátt eitt sé nefnt. Allt í raunverulegum stærðum!

Með gagnvirkum upplýsingaskjám, róandi hvalahljóðum, neðansjávar lýsingu og sandgólfi er Hvalasýningin eins og draumkenndur ævintýraheimur fyrir alla fjölskylduna.

Menningarkorthafar fá tvo miða á sýninguna á verði eins.

Nánari upplýsingar má finna á www.whalesoficeland.is

 

 

Special Tours Reykjavíkurhöfn – 20% afsláttur af ferðum fyrir korthafa

Hvaðaskoðun, lundasigling, RIB bátar og fleira

Sérkjör fyrir handhafa Menningarkorts Reykjavíkur - 20% afsláttur af miðakaupum á specialtours.is - afsláttarkóði hefur verið sendur út á póstlista.

Special Tours býður upp á ævintýraferðir á sjó fyrir einstaklinga og hópa allt árið um kring. Siglt er frá Reykjavíkurhöfn þaðan sem örstutt er að heimkynnum hvala og lunda.

Aðstandendum er sönn ánægja að bjóða handhöfum Menningarkorts Reykjavíkur 20% afslátt af öllum stökum ferðum Special Tours*

 

*Gildir ekki af combo ferðum né af vörum þriðja aðila.

Anna Guðjónsdóttir: Hluti í stað heildar

Fimmtudaginn 21. febrúar kl. 17.00 verður opnuð sýning á verkum Önnu Guðjónsdóttur, Hluti í stað heildar, í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi.

Anna Guðjónsdóttir er fædd og uppalin í Reykjavík en nú búsett í Hamborg í Þýskalandi. Þar hefur hún átt farsælan myndlistarferil, haldið stórar sýningar og unnið til verðlauna fyrir þær.

Á sýningunni Hluti í stað heildar umbreytist sýningarsalurinn í nokkurs konar sýningarskáp sem gestir ganga inn í, umvafðir málverkum sem spegla rýmið sjálft og opna jafnframt inn í aðra og ófyrirséða heima.

Sýningarstjóri er Markús Þór Andrésson.

Nánari upplýsingar má nálgast hér.