ÁRSKORT Á LISTASAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á þremur stöðum

Listasafn Reykjavíkur er lifandi og framsækinn vettvangur sem býður upp á fjölbreyttar sýningar á nútíma- og samtímalist, málverkum og skúlptúrum eftir virta íslenska og erlenda listamenn. Safnið er jafnframt vettvangur fyrir ungt og upprennandi hæfileikafólk.

ÁRSKORT Á BORGARSÖGUSAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á fimm einstökum stöðum

Borgarsögusafn Reykjavíkur er næststærsta safn landsins á eftir Þjóðminjasafninu. Hlutverk þess er að safna, skrásetja, varðveita og rannsaka menningarminjar sem eru einkennandi fyrir menningararf borgarinnar, og miðla sögu hennar og menningu frá landnámi til samtímans.

Borgarbókasafn Reykjavíkur er stærsta menningarstofnun borgarinnar. Þar er hægt að njóta fjölbreytts safnkosts og sækja innblástur í gegnum bókmenntir, listir og viðburði á vegum safnsins. Safnið er jafnframt vettvangur uppgötvunar og sköpunar með smiðjum og tilraunaverkstæðum þar sem tækniþekking og stafræn færni til framtíðar gegna lykilhlutverki.

Leikhús, söfn, sýningar, bíó, tónleikar, hátíðir og matur. Handhafar Menningarkorts Reykjavíkur njóta margvíslegra fríðinda hjá fjölmörgum samstarfsaðilum.

Í hverjum mánuði koma spennandi tilboð frá söfnum borgarinnar og samstarfsaðilum.

2 fyrir 1 á öll söfn Listasafns Reykjavíkur í desember. 

Menningarkorthafar geta boðið gesti með sér á öll söfn Listasafns Reykjavíkur í desember. 

Þær sýningar sem standa nú yfir í Listasafni Reykjavíkur eru meðal annars úngl- úngl, sýning á verkum Ólafar Nordal,  Get ekki teiknað bláklukku, sýning á verkum Jóhannesar S. Kjarval, Eitthvað úr engu, myndheimur Magnúsar Pálssonar og Bráðnun Jökla, sýning á ljósmyndum Ólafs Elíassonar sem opnaði nýverið í Hafnarhúsi. 

Korthafar geta tekið með sér 1 gest í hvert sinn sem þeir heimsækja Listasafn Reykjavíkur í desember. 

Hægt er að skoða sýningar Listasafns Reykjavíkur hér :

https://listasafnreykjavikur.is/syningar

 

 

 

 

 

 

2 fyrir 1 á Sjóminjasafnið í Reykjavík í nóvember

Fiskur og fólk – sjósókn í 150 ár

Fiskur hefur verið mikilvægur hluti af íslensku mataræði um aldir og ein verðmætasta útflutningsvara þjóðarinnar. Á grunnsýningu safnsins er fjallað um fiskveiðar Íslendinga, frá því að árabátarnir gömlu viku fyrir útgerð stórra skipa á síðustu áratugum 19. aldar og fram yfir aldamótin 2000.

Melckmeyt 1659 – fornleifarannsókn neðansjávar

Á sýningunni fá gestir innsýn í rannsóknaraðferðir fornleifafræðinnar og fjallað er um valda þætti úr sögu hollenska kaupskipsins Melckmeyt sem fórst úti fyrir ströndum Íslands í október 1659. Meira en 300 árum síðar fundu kafarar flak skipsins og er það elsta skipsflak sem vitað er um við Íslandsstrendur.

*Korthafar geta tekið með sér einn gest í hvert skipti sem þeir heimsækja safnið í nóvember.

Aðalstræti 10 opnar sem safn og sýningarhús

Hið sögufræga hús að Aðalstræti 10 hefur opnað sem safn og sýningarhús á vegum Borgarsögusafns Reykjavíkur. Frítt er inn á safnið fyrir handhafa Menningarkorts Reykjavíkur.

Um er að ræða eitt elsta og merkasta hús borgarinnar, í hjarta gamla miðbæjarins, reist árið 1762 fyrir starfsemi verksmiðja Innréttinganna. Saga hússins er samfléttuð sögu Reykjavíkur. Þegar það var reist var hér aðeins vísir að þorpi og íslenskt samfélag byggði enn fyrst og fremst á sjálfsþurftarbúskap í dreifbýli. 140 árum síðar var Reykjavík orðin að höfuðstað landsins, iðandi af mannlífi og á hraðri leið inn í nútímann. Nú er þetta fallega og merka hús orðið hluti af Borgarsögusafni Reykjavíkur þar sem hægt er að kynnast sögu borgarinnar og íbúa hennar.

Í glæsilegu bakhúsinu hafa verið opnaðar tvær sýningar:

Ljósmyndasýningin Reykjavík 2018 er samstarfsverkefni Þjóðminjasafns Íslands og Borgarsögusafns Reykjavíkur, sett upp í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands. Höfundur texta sýningarinnar er skáldið Sjón og kemst hann svo að orði um viðfangsefni hennar: "Er maður hugsar til fólksins sem lifið árið 1918 þykir manni ótrúlegt að það hafi haft tíma til þess að lifa svokölluðu venjulegu lífi, það hljóti að hafa verið of önnum kafið að takast á við hina sögulegu viðburði til þess að elska, vinna, dreyma og þjást. En líkt og við sjálf - sem einnig þykjumst lifa viðburðaríka tíma - átti það sér sína daglegu tilveru, í sinni litlu en ört vaxandi Reykjavík, og um það bera ljósmyndirnar á þessari sýningu vitni."

Torfhúsabærinn Reykjavík er sýning sem byggir á rannsóknum Hjörleifs Stefánssonar arkitekts. Sýningin fjallar um torfhús í Reykjavík frá upphafi landnáms til fyrstu áratuga 20. aldar. Í þúsund ár var Reykjavík torfhúsaþorp, svo tók við stutt timburhúsatímabil og í eina öld hefur Reykjavík verið steypuhúsabær. Torfhúsum 19. aldar eru gerð skil með samtímateikningum og ljósmyndum auk þess sem húsaskipan er skýrð með teikningum sem gerðar hafa verið á grundvelli ritgerðar Þórbergs Þórðarsonar Lifnaðarhættir í Reykjavík á síðari helmingi 19. aldar og ýmsum skjölum frá sama tíma.

Í húsinu er einnig starfrækt vönduð safnbúð Borgarsögusafns Reykjavíkur. Menningarkorthafar fá 10% afslátt þar sem og í öðrum safnbúðum Borgarsögusafns og Listasafns Reykjavíkur.

Heima: Ný sýning í Skoti Ljósmyndasafns Reykjavíkur

Heima er yfirskrift nýrrar sýningar sem opnar þann 5. apríl í Skoti Ljósmyndasafns Reykjavíkur með ljósmyndum eftir Hönnu Siv Bjarnardóttur.

Hanna heimsótti nokkra af eldri íbúum Stokkseyrar. Í stuttri heimsókn er hægt að komast að ýmsu um manneskjuna sem þar býr en heimilið endurspeglar persónuleika og sögu fólks.
Fólk safnar að sér húsgögnum og smáhlutum, sumir hlutir hafa mikið tilfinningalegt gildi á meðan öðrum er hent eftir stutta viðkomu á heimilinu.

„Í litlu samfélagi þekkjast allir og vita nokkurn veginn hvað er að gerast í lífi hvers og eins. Ég kannast við allt fólkið sem ég heimsótti en hafði komið heim til fæstra. Það er sérstök upplifun að koma í heimsókn til alls þessa fólks eftir að hafa ímyndað mér árum saman hvernig heimili þeirra er, en oft eru þau allt öðruvísi en ég sá fyrir mér“.
-Hanna Siv Bjarnardóttir

Sýningin stendur til 29. maí 2018.