ÁRSKORT Á LISTASAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á þremur stöðum

Listasafn Reykjavíkur er lifandi og framsækinn vettvangur sem býður upp á fjölbreyttar innlendar og alþjóðlegar sýningar á nútíma- og samtímalist, málverkum og skúlptúrum eftir virta íslenska og erlenda listamenn. Safnið er jafnframt vettvangur fyrir ungt og upprennandi hæfileikafólk.

ÁRSKORT Á BORGARSÖGUSAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á fimm einstökum stöðum

Borgarsögusafn Reykjavíkur er næststærsta safn landsins á eftir Þjóðminjasafninu. Hlutverk þess er að safna, skrásetja, varðveita og rannsaka menningarminjar sem eru einkennandi fyrir menningararf borgarinnar, og miðla sögu hennar og menningu frá landnámi til samtímans.

Borgarbókasafn Reykjavíkur er stærsta menningarstofnun borgarinnar. Menningarhús safnsins eru sex talsins ásamt bókabíl og sögubíl. Þar er hægt að njóta fjölbreytts safnkosts og sækja innblástur í gegnum bókmenntir, listir og viðburði á vegum safnsins. Safnið er jafnframt vettvangur uppgötvunar og sköpunar með smiðjum og tilraunaverkstæðum þar sem tækniþekking og stafræn færni til framtíðar gegna lykilhlutverki.

Leikhús, söfn, sýningar, bíó, tónleikar, hátíðir og matur. Handhafar Menningarkorts Reykjavíkur njóta margvíslegra fríðinda hjá fjölmörgum samstarfsaðilum.

Í hverjum mánuði koma spennandi tilboð frá söfnum borgarinnar og samstarfsaðilum.

Myrkir músíkdagar – 20% afsláttur af miðaverði fyrir korthafa

Myrkir músíkdagar fara fram 26. janúar til 2. febrúar 2019. Handhafar Menningarkorts Reykjavíkur fá 20% afslátt af miðaverði*

Myrkir músíkdagar eru ein elsta tónlistarhátíð landsins, stofnuð árið 1980. Lögð er áhersla á samtímatónlist frá íslenskum jafnt sem erlendum flytjendum og tónskáldum. Hátíðin fer fram dagana 26. janúar til 2. febrúar í Hörpu sem og öðrum minni tónleikastöðum í miðbæ Reykjavíkur og Hafnarfirði. Meðal flytjenda er Kammersveit Reykjavíkur, Caput Ensemble, Nordict Affect, The Riot Ensemble, Schola cantorum og Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Nánari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar má nálgast á www.myrkir.is

Hægt verður að kaupa miða á staka viðburði, sem og klippikort sem gildir á fimm viðburði á hátíðinni. Hátíðarpassi gildir einnig á opnunartónleika Sinfóníunnar en einnig er hægt að kaupa staka miða. Athugið að afsláttur gildir ekki á staka miða á opnunartónleika.

*Miðar á þessu tilboði eru seldir á skrifstofu tix.is, Ránargötu 18, gegn framvísun Menningakorts Reykjavíkur.

Janúartilboð – tveir fyrir einn á öll söfn Borgarsögusafns Reykjavíkur*

*Í janúar geta handhafar Menningarkorts Reykjavíkur boðið með sér gesti í hvert sinn sem þeir heimsækja eitthvert af söfnum Borgarsögusafns Reykjavíkur.

Borgarsögusafn Reykjavíkur er eitt safn á fimm einstökum stöðum:

  • Árbæjarsafn
  • Landnámssýningin
  • Sjóminjasafnið í Reykjavík
  • Ljósmyndasafn Reykjavíkur
  • Viðey (10% afsláttur í Viðeyjarferjuna fyrir handhafa Menningarkorts - frítt fyrir alla gesti í eyjuna)

Nánari upplýsingar um söfnin og dagskrá þeirra í janúar má finna á www.borgarsogusafn.is 

Páll Stefánsson Núna – Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Núna er yfirskrift sýningar með ljósmyndum Páls Stefánssonar sem opnuð verður í Ljósmyndasafni Reykjavíkur laugardaginn 19. janúar kl. 15.00

„Eftir þrjátíu og sjö ár sem ferðalangur og ljósmyndari er það þögnin sem er hvað minnistæðust. Þessi ærandi þögn í endalausri víðáttu Vatnajökuls, líka þrúgandi þögnin í Cox´s Baazar í Bangladesh þar sem hálf milljón flóttamanna höfðu misst málið. Ég er ekki að líta til baka, þessi sýning er um núið, þau augnablik sem ég er að fanga hér og nú. Flóttamenn á faraldsfæti, straumhörð á sem líður áfram. Kona í hvarfi bak við við þúfu eða hól. Hól sem breytist í fjall. Fjallmyndarlegan mann sem á ekkert. Ekki einu sinni framtíð.“

Páll Stefánsson er fæddur norður undir baug, í Öxarfjarðarhreppi árið 1958. Hann nam ljósmyndun í Svíþjóð frá 1979 til 1982 og er nú Sony Global Imaging Ambassador. Páll hefur gefið 37 bækur, með myndum af fjöllunum handað við hornið, líka af koptískri stelpu í Alexandríu og löngum skuggum á gulnuðum sandi í Önundarfirði fyrir vestan.

„Ef staðir fanga mig, þá gríp ég augnablikin,.....núna.“

Sýningin mun standa til 12. maí 2019.

Sýningaopnun á Ásmundarsafni 19. janúar 2019.

Laugardaginn 19. janúar kl. 16.00 opna tvær nýjar sýningar á Ásmundarsafni við Sigtún. Ný yfirlitssýning á verkum Ásmundar Sveinssonar, Undir sama himni, og sýningin Skúlptúr og nánd með verkum myndlistamannsins Sigurðar Guðmundssonar.

Á báðum sýningum getur að líta frummyndir verka, skissur og teikningar auk listaverka sem eru einkennandi fyrir list Ásmundar og Sigurðar og hafa hugmyndaleg eða formræn tengsl við verk þeirra í almenningsrými.

Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur og eru sýningarnar liður í því markmiði safnsins að beina sjónum manna að þeim listaverkum sem við njótum sem hluta af daglegu lífi.

Sýningastjórar eru Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneignar og rannsókna, og Yean Fee Quay, verkefnastjóri sýninga hjá Listasafni Reykjavíkur.