ÁRSKORT Á LISTASAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á þremur stöðum

Listasafn Reykjavíkur er lifandi og framsækinn vettvangur sem býður upp á fjölbreyttar sýningar á nútíma- og samtímalist, málverkum og skúlptúrum eftir virta íslenska og erlenda listamenn. Safnið er jafnframt vettvangur fyrir ungt og upprennandi hæfileikafólk.

ÁRSKORT Á BORGARSÖGUSAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á fimm einstökum stöðum

Borgarsögusafn Reykjavíkur er næststærsta safn landsins á eftir Þjóðminjasafninu. Hlutverk þess er að safna, skrásetja, varðveita og rannsaka menningarminjar sem eru einkennandi fyrir menningararf borgarinnar, og miðla sögu hennar og menningu frá landnámi til samtímans.

Borgarbókasafn Reykjavíkur er stærsta menningarstofnun borgarinnar. Þar er hægt að njóta fjölbreytts safnkosts og sækja innblástur í gegnum bókmenntir, listir og viðburði á vegum safnsins. Safnið er jafnframt vettvangur uppgötvunar og sköpunar með smiðjum og tilraunaverkstæðum þar sem tækniþekking og stafræn færni til framtíðar gegna lykilhlutverki.

Leikhús, söfn, sýningar, bíó, tónleikar, hátíðir og matur. Handhafar Menningarkorts Reykjavíkur njóta margvíslegra fríðinda hjá fjölmörgum samstarfsaðilum.

Í hverjum mánuði koma spennandi tilboð frá söfnum borgarinnar og samstarfsaðilum.

10% afsláttur alla daga fyrir Menningarkorthafa í safnbúðum!

Við minnum á fastan afslátt! Handhafar Menningarkorts Reykjavíkur fá 10% afslátt í safnbúðum allra safna í eigu Reykjavíkurborgar.

Safnbúðir Reykjavíkurborgar er að finna á Borgarsögusafni (Árbæjarsafn, Landnámssýningin, Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Sjóminjasafnið í Reykjavík) og Listasafni Reykjavíkur (Ásmundarsafn, Hafnarhús og Kjarvalsstaðir).

Í safnbúðum okkar má finna gott úrval safn- og sýningartengdra vara, íslenska hönnun og handverk, erlenda gjafavöru, bækur, kort og veggspjöld.

Hvern viltu taka með þér í Hafnarhús í apríl?

Í apríl geta korthafar tekið með sér gest í Hafnarhús þar sem nú standa yfir fjórar sýningar:

Erro: Svart á hvítu þar sem gefur að líta um þrjátíu ný og nýleg svarthvít málverk eftir listamanninn. Í verkunum blandar hann saman sögulegum persónum og manga- og teiknimyndasögufígúrum.

Anna Guðjónsdóttir: Hluti í stað heildar. Á sýningunni umbreytist sýningarsalurinn í nokkurs konar sýningaskáp sem gestir ganga inn í, umvafðir málverkum sem spegla rýmið sjálft og opna jafnframt inn í aðra og ófyrirséða heima.

D36 Steinunn Önnudóttir: Non plus ultra. Listamaðurinn rannsakar efniseiginleika og birtingamyndir í sögu og samtíma. Hún veltir fyrir sér raunveruleika og eftirmynd, því sem er og því sem þykist vera. Getur eitthvað verið, án þess að vera til í raun og veru? Hversu raunsönn þar eftirmynd að vera? Er nóg að setja fram staðfengil til að veita hugmynd brautargengi?

Núna norrænt / Now Nordic er sýning á því nýjasta í norrænni samtímahönnun. Sýningastjórar leituðu uppi spennandi nýja hönnun á Norðurlöndunum. Sýningin var fyrst sett upp í Kaupmannnahöfn 2018, ferðaðist síðan til Lundúna og kemur nú til Íslands í tilefni af Hönnunarmars.

Nánar á www.listasafnreykjavikur.is 

Anna Guðjónsdóttir: Hluti í stað heildar

Fimmtudaginn 21. febrúar kl. 17.00 verður opnuð sýning á verkum Önnu Guðjónsdóttur, Hluti í stað heildar, í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi.

Anna Guðjónsdóttir er fædd og uppalin í Reykjavík en nú búsett í Hamborg í Þýskalandi. Þar hefur hún átt farsælan myndlistarferil, haldið stórar sýningar og unnið til verðlauna fyrir þær.

Á sýningunni Hluti í stað heildar umbreytist sýningarsalurinn í nokkurs konar sýningarskáp sem gestir ganga inn í, umvafðir málverkum sem spegla rýmið sjálft og opna jafnframt inn í aðra og ófyrirséða heima.

Sýningarstjóri er Markús Þór Andrésson.

Nánari upplýsingar má nálgast hér.

Hringur, ferhyrningur og lína – sýningaropnun á Kjarvalsstöðum

Á Safnanótt, föstudaginn 8. febrúar kl. 17.00 verður opnuð sýning á verkum myndlistamannsins Eyborgar Guðmundsdóttur (1924 - 1977) í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum. Sýningin nefnist Hringur, ferhyrningur og lína sem er tilvitnun í Eyborgu sjálfa þegar hún lýsir frumformum geómetrískar listar.

Eyborg Guðmundsdóttir var afkastamikill myndlistamaður þrátt fyrir stuttan feril. Hún vann að myndlist og hönnun í um 16 ár og eftir hana liggja á annað hundrað listaverk. Eyborg var sérstæður listamaður í íslenskum listheimi. Verk hennar byggja á fyrirmyndum geómetrískrar afstraktlistar þar sem sjónræn áhrif reglubundinna forma eru megináherslan, stíll sem kenndur er við "op-list."

Sýningin á Kjarvalsstöðum er sett upp í lauslegri tímaröð. Þar eru um eitt hundrað verk sýnd, Þau samanstanda af málverkum, plexiglermyndum, klippimyndum, lágmyndum og hönnun. Verkin, sem valin hafa verið af kostgæfni af sýningastjórum, eru flest í einkaeign og því gefst einstakt tækifæri til þess að sjá þau á sýningunni.

Sýningastjórar eru tveir, Heba Helgadóttir og Ingibjörg Sigurjónsdóttir. Heba hefur lagt stund á nám í listfræði við Háskóla Íslands og rannsakað verk Eyborgar fyrir BA ritgerð sína. Ingibjörg lauk BA námi frá myndlistadeild Listaháskóla Íslands árið 2010 og hefur tekið þátt í sýningum, gjörningjum og öðrum verkefnum bæði á Íslandi og erlendis. Hún er ein af aðstandendum Kling og Bang gallerís.