ÁRSKORT Á LISTASAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á þremur stöðum

Listasafn Reykjavíkur er lifandi og framsækinn vettvangur sem býður upp á fjölbreyttar sýningar á nútíma- og samtímalist, málverkum og skúlptúrum eftir virta íslenska og erlenda listamenn. Safnið er jafnframt vettvangur fyrir ungt og upprennandi hæfileikafólk.

ÁRSKORT Á BORGARSÖGUSAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á fimm einstökum stöðum

Borgarsögusafn Reykjavíkur er næststærsta safn landsins á eftir Þjóðminjasafninu. Hlutverk þess er að safna, skrásetja, varðveita og rannsaka menningarminjar sem eru einkennandi fyrir menningararf borgarinnar, og miðla sögu hennar og menningu frá landnámi til samtímans.

Borgarbókasafn Reykjavíkur er stærsta menningarstofnun borgarinnar. Þar er hægt að njóta fjölbreytts safnkosts og sækja innblástur í gegnum bókmenntir, listir og viðburði á vegum safnsins. Safnið er jafnframt vettvangur uppgötvunar og sköpunar með smiðjum og tilraunaverkstæðum þar sem tækniþekking og stafræn færni til framtíðar gegna lykilhlutverki.

Leikhús, söfn, sýningar, bíó, tónleikar, hátíðir og matur. Handhafar Menningarkorts Reykjavíkur njóta margvíslegra fríðinda hjá fjölmörgum samstarfsaðilum.

Í hverjum mánuði koma spennandi tilboð frá söfnum borgarinnar og samstarfsaðilum.

Tveir fyrir einn á Listasafn Reykjavíkur Kjarvalsstöðum í ágúst fyrir korthafa

Í ágúst geta Menningarkorthafar boðið gesti með sér á Kjarvalsstaði.

Kjarvalsstaðir voru teknir í notkun árið 1973 og er fyrsta byggingin hérlendis sem hönnuð er sérstaklega fyrir myndlist. Á Kjarvalsstöðum eru reglulega sýningar á verkum Jóhannesar S. Kjarvals (1885 -1972) enda skipar hann sérstakan sess í íslenskri menningar- og listasögu sem einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar fyrr og síðar.

Gluggar hússins ná frá gólfi og upp í loft svo vel sést yfir Klambratún sem var sérstaklega hannað og skipulagt sem hluti af listrænni menningu Reykjavíkurborgar.

Á kaffihúsinu á Kjarvalsstöðum er upplagt að njóta útsýnisins og þeirra ljúffengra veitinga sem þar er á boðstólum. Kaffihúsið er opið frá klukkan 10.00-17.00 alla daga vikunnar.

Á Kjarvalsstöðum standa nú sýning á verkum Kjarvals undir heitinu Jóhannes S. Kjarval : Hér heima.

Einnig stendur sýningin Allt sem sýnist - Raunveruleiki á striga 1970 - 2020

Menningarkorthafar geta tekið með sér einn gest í hvert skipti sem þeir heimsækja Kjarvalsstaði í ágúst.

 

Frekari upplýsingar má finna á https://listasafnreykjavikur.is/syningar

Tveir fyrir einn á Ljósmyndasafn Reykjavíkur í júlí!

Í júlí geta Menningarkorthafar tekið með sér gest á Ljósmyndasafn Reykjavíkur*

Ljósmyndasafn Reykjavíkur er miðstöð ljósmynda þar sem fortíðin og nútíðin mætast. Markmið safnsins er að varðveita, safna og sýna bæði sögulega og samtímaljósmyndun í listrænu, félags- og menningarlegu samhengi. Þar eru nú varðveittar um sex milljónir ljósmynda frá því um 1860 og fram til okkar tíma.

*Korthafar geta tekið með sér einn gest í hvert skipti sem þeir heimsækja safnið í júní.

Nánari upplýsingar um safnið má nálgast hér :

https://borgarsogusafn.is/ljosmyndasafn-reykjavikur/um-ljosmyndasafnid

 

 

 

Söfn Reykjavíkur opna 4. maí

Söfn Reykjavíkurborgar verða opnuð að nýju, mánudaginn 4. maí þegar fjöldamörk samkomubanns breytast úr 20 í 50. Þetta á við um Listasafn Reykjavíkur, Borgarbókasafnið og Borgarsögusafn Reykjavíkur .
Menningarkort verða framlengd um 6 vikur, þann tíma sem söfnin hafa verið lokuð.
Skiladagur allra bókasafnsgagna hefur verið framlengdur til 14. maí og eru engar dagsektir reiknaðar fram að þeim degi.
Frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðum safnana.

Höfum tveggja metra regluna í huga og njótum alls þess sem söfnin hafa uppá að bjóða í sumar.

Öllum söfnum Reykjavíkurborgar lokað til 14. apríl. Gildistími Menningarkortsins framlengdur sem nemur lokuninni.

Öllum söfnum Reykjavíkurborgar lokað til 14. apríl.

Öllum söfnum Reykjavíkurborgar verður lokað frá og með 24. mars vegna herts samkomubanns. Lokunin stendur til 14. apríl svo framarlega sem ekki teygist á samkomubanninu.

Þetta þýðir að öllum bókasöfnum verður lokað í Reykjavík, Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsi, Kjarvalsstöðum og á Ásmundarsafni sem og eftirfarandi sýningarstöðum Borgarsögusafns: Landnámssýningunni, Sjóminjasafni Reykjavíkur, Ljósmyndasafni Reykjavíkur og safnsvæði Árbæjarsafns.

Áhugasömum er bent á vefsíður safnanna þar sem finna má ýmsan fróðleiks, svo sem um sýningar, listaverk, gamlar ljósmyndir, rannsóknarskýrslur og safnmuni sem söfnin geyma. Á vefsíðu Listasafns Reykjavíkur er einnig efni sem nota má í fjarkennslu og á morgun fer safnið af stað með listaverk dagsins í öllum sínum miðlum. Þá er vert að benda á app listasafnsins um útilistaverk í Reykjavík sem hægt er að nýta í gönguferðum um borgina.

Innri starfsemi safnanna verður þó með óbreyttu sniði og starfsfólk mun eftir sem áður svara erindum og sinna rannsóknum, skráningum og undirbúningi nýrra sýninga síðar á árinu. Ekki verða lagðar sektir á safnkost bókasafnsins á tímabilinu og gildistími Menningarkorta framlengist um sem nemur lokunartíma safnanna.

Fleira er í bígerð hjá söfnum Reykjavíkurborgar, til að miðla listum og menningu til borgarbúa, og verður það kynnt frekar á næstu dögum.