ÁRSKORT Á LISTASAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á þremur stöðum

Listasafn Reykjavíkur er lifandi og framsækinn vettvangur sem býður upp á fjölbreyttar sýningar á nútíma- og samtímalist, málverkum og skúlptúrum eftir virta íslenska og erlenda listamenn. Safnið er jafnframt vettvangur fyrir ungt og upprennandi hæfileikafólk.

ÁRSKORT Á BORGARSÖGUSAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á fimm einstökum stöðum

Borgarsögusafn Reykjavíkur er næststærsta safn landsins á eftir Þjóðminjasafninu. Hlutverk þess er að safna, skrásetja, varðveita og rannsaka menningarminjar sem eru einkennandi fyrir menningararf borgarinnar, og miðla sögu hennar og menningu frá landnámi til samtímans.

Borgarbókasafn Reykjavíkur er stærsta menningarstofnun borgarinnar. Þar er hægt að njóta fjölbreytts safnkosts og sækja innblástur í gegnum bókmenntir, listir og viðburði á vegum safnsins. Safnið er jafnframt vettvangur uppgötvunar og sköpunar með smiðjum og tilraunaverkstæðum þar sem tækniþekking og stafræn færni til framtíðar gegna lykilhlutverki.

Leikhús, söfn, sýningar, bíó, tónleikar, hátíðir og matur. Handhafar Menningarkorts Reykjavíkur njóta margvíslegra fríðinda hjá fjölmörgum samstarfsaðilum.

Í hverjum mánuði koma spennandi tilboð frá söfnum borgarinnar og samstarfsaðilum.

Tveir fyrir einn á Landnámssýninguna í mars.

Í mars geta Menningarkorthafar tekið með sér gest á Landnámssýninguna Aðalstræti 16.

Sýningin veitir innsýn inn í líf og störf þess fólks sem fyrst settist að hér á landi. Þungamiðja hennar er rúst skála frá 10. öld sem fannst árið 2001 og er varðveitt á sínum upprunalega stað. Norðan við skálann fannst veggbútur sem er enn eldri, eða síðan fyrir 871, og er hann meðal elstu mannvistarleifa sem fundist hafa á Íslandi.

Með hjálp margmiðlunartækni og túlkun fornminja er ljósi varpað á líf og tilveru fyrstu íbúa Reykjavíkur og tengsl þeirra við umhverfið í nýju landi.

Febrúartilboð – tveir fyrir einn á Ásmundarsafn fyrir korthafa

Í febrúar geta Menningarkorthafar boðið með sér gesti á Ásmundarsafn.

Ásmundarsafn er helgað verkum myndhöggvarans Ásmundar Sveinssonar (1893-1982) og var safnið formlega opnað árið 1983. Í Ásmundarsafni er ávallt sýning á verkum Ásmundar en hann ánafnaði Reykjavíkurborg stóru safni listaverka sinna auk byggingarinnar eftir sinn dag.

*Korthafar geta tekið með sér einn gest í hvert sinn sem þeir heimsækja safnið í febrúar.

Ásmundur var einn af frumkvöðlum höggmyndalistar hér á landi og hannaði bygginguna að mestu leyti sjálfur á árunum 1942-1959. Hann byggði meðal annars bogalaga byggingu aftan við húsið sem var bæði hugsuð sem vinnustofa og sýningarsalur.

Í garðinum er að finna stækkanir og afsteypur af verkum Ásmundar, en hann kom mörgum þeirra þar fyrir sjálfur.

Nánari upplýsingar um safnið má finna á www.listasafnreykjavikur.is.

Öllum söfnum Reykjavíkurborgar lokað til 14. apríl. Gildistími Menningarkortsins framlengdur sem nemur lokuninni.

Öllum söfnum Reykjavíkurborgar lokað til 14. apríl.

Öllum söfnum Reykjavíkurborgar verður lokað frá og með 24. mars vegna herts samkomubanns. Lokunin stendur til 14. apríl svo framarlega sem ekki teygist á samkomubanninu.

Þetta þýðir að öllum bókasöfnum verður lokað í Reykjavík, Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsi, Kjarvalsstöðum og á Ásmundarsafni sem og eftirfarandi sýningarstöðum Borgarsögusafns: Landnámssýningunni, Sjóminjasafni Reykjavíkur, Ljósmyndasafni Reykjavíkur og safnsvæði Árbæjarsafns.

Áhugasömum er bent á vefsíður safnanna þar sem finna má ýmsan fróðleiks, svo sem um sýningar, listaverk, gamlar ljósmyndir, rannsóknarskýrslur og safnmuni sem söfnin geyma. Á vefsíðu Listasafns Reykjavíkur er einnig efni sem nota má í fjarkennslu og á morgun fer safnið af stað með listaverk dagsins í öllum sínum miðlum. Þá er vert að benda á app listasafnsins um útilistaverk í Reykjavík sem hægt er að nýta í gönguferðum um borgina.

Innri starfsemi safnanna verður þó með óbreyttu sniði og starfsfólk mun eftir sem áður svara erindum og sinna rannsóknum, skráningum og undirbúningi nýrra sýninga síðar á árinu. Ekki verða lagðar sektir á safnkost bókasafnsins á tímabilinu og gildistími Menningarkorta framlengist um sem nemur lokunartíma safnanna.

Fleira er í bígerð hjá söfnum Reykjavíkurborgar, til að miðla listum og menningu til borgarbúa, og verður það kynnt frekar á næstu dögum.

 

25% afsláttur á Stockfish Film Festival 2020

Kvikmyndahátíðin Stockfish Film Festival & Industry Days verður haldin dagana 12. mars til 22 mars í Bíó Paradís. 

Markmið hátíðarinnar er að þjóna samfélaginu sem hún sprettur úr, efla og auðga kvikmyndamenningu á Íslandi árið um kring og vera íslenskum kvikmyndaiðnaði lyftistöng bæði erlendis og innanlands. Áhersla er lögð á metnaðarfulla dagskrá og viðburði. Sérvaldar, alþjóðlegar verðlaunamyndir eru sýndar á hátíðinni og fá áhorfendur tækifæri til að ræða við kvikmyndagerðafólk sem stendur á bak við þær.

Menningarkorthafar fá 25% afslátt á hátíðina. Miðar á þessum kjörum verða seldir í miðasölu Bíó Paradís gegn framvísun Menningarkorts. Nánari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar má finna hér.