ÁRSKORT Á LISTASAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á þremur stöðum

Listasafn Reykjavíkur er lifandi og framsækinn vettvangur sem býður upp á fjölbreyttar sýningar á nútíma- og samtímalist, málverkum og skúlptúrum eftir virta íslenska og erlenda listamenn. Safnið er jafnframt vettvangur fyrir ungt og upprennandi hæfileikafólk.

ÁRSKORT Á BORGARSÖGUSAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á fimm einstökum stöðum

Borgarsögusafn Reykjavíkur er næststærsta safn landsins á eftir Þjóðminjasafninu. Hlutverk þess er að safna, skrásetja, varðveita og rannsaka menningarminjar sem eru einkennandi fyrir menningararf borgarinnar, og miðla sögu hennar og menningu frá landnámi til samtímans.

Borgarbókasafn Reykjavíkur er stærsta menningarstofnun borgarinnar. Þar er hægt að njóta fjölbreytts safnkosts og sækja innblástur í gegnum bókmenntir, listir og viðburði á vegum safnsins. Safnið er jafnframt vettvangur uppgötvunar og sköpunar með smiðjum og tilraunaverkstæðum þar sem tækniþekking og stafræn færni til framtíðar gegna lykilhlutverki.

Leikhús, söfn, sýningar, bíó, tónleikar, hátíðir og matur. Handhafar Menningarkorts Reykjavíkur njóta margvíslegra fríðinda hjá fjölmörgum samstarfsaðilum.

Í hverjum mánuði koma spennandi tilboð frá söfnum borgarinnar og samstarfsaðilum.

Tveir fyrir einn á Árbæjarsafn | Afmælissýning Nóa Síríus

Korthafar Menningarkortsins geta tekið með sér einn gest í hvert skipti sem þeir heimsækja Árbæjarsafn í október. Árbæjarsafn er útisafn sem er opið allan ársins hring. Þar er safn gamalla húsa sem flest hafa verið flutt á safnsvæðið úr miðbæ Reykjavíkur. Svæðið skiptist í torg, þorp og sveit og gefur góða mynd af umhverfi og bæjarbrag í Reykjavík á 19. og 20. öld. Á safninu er boðið upp á fjölda sýninga og viðburða, þar sem einstökum þáttum í sögu Reykjavíkur eru gerð skil.

ÖLDIN HANS NÓA: AFMÆLISSÝNING NÓA SÍRÍUS

Öldin hans Nóa er sérstök afmælissýning Nóa Síríus á Árbæjarsafni og segir sögu einnar elstu sælgætisgerðar Reykjavíkur. Í ár eru hundrað ár frá því að Brjóstsykursgerðin Nói sendi frá sér fyrstu lögunina af sínu landsfræga sælgæti. Síðan þá hafa ófáar karamellur verið tuggðar, allskyns dýrindis konfektmolar smakkaðir — að ekki sé talað um Opalið, súkkulaðið, brjóstsykurinn, páskaeggin og allt hitt ómótstæðilega góðgætið.

Nánari upplýsingar um dagskrá Árbæjarsafns má finna á http://www.borgarsogusafn.is

 

Tveir fyrir einn á Ásmundarsafn í ágúst fyrir korthafa

Í ágúst geta Menningarkorthafar boðið gesti með sér á Ásmundarsafn.

Menningarkorthafar geta tekið með sér einn gest í hvert skipti sem þeir heimsækja Ásmundarsafn í ágúst.

Ásmundarsafn er helgað verkum myndhöggvarans Ásmundar Sveinssonar (1893-1982) og var safnið formlega opnað árið 1983. Safnið er til húsa í einstæðri byggingu sem var heimili og vinnustofa listamannsins.

Í Ásmundarsafni er ávallt sýning á verkum Ásmundar en hann ánafnaði Reykjavíkurborg stóru safni listaverka sinna auk byggingarinnar eftir sinn dag. Þá eru reglulega haldnar sýningar á verkum annarra listamanna í safninu sem hafa gjarnan vísun í list Ásmundar.

Ásmundur var einn af frumkvöðlum höggmyndalistar hér á landi og hannaði bygginguna að mestu leyti sjálfur á árunum 1942-1959. Hann byggði meðal annars bogalaga byggingu aftan við húsið sem var bæði hugsuð sem vinnustofa og sýningarsalur. Mannfreð Vilhjálmsson arkitekt hannaði tengibygginguna sem tengir saman aðalhúsið og bogabygginguna. Formhugmyndir hússins eru sóttar til Miðjarðarhafsins, í kúluhús Miðausturlanda og píramída Egyptalands.

Í garðinum er að finna stækkanir og afsteypur af verkum Ásmundar, en hann kom mörgum þeirra þar fyrir sjálfur.

Einnig stendur yfir fjölskyldusýningin Leikum og Lærum. Þessi skemmtilega þátttökusýningu hefur notið mikilla vinsælda og býður uppá einstakt tækifæri til að búa til minningar og leika og læra saman á eftirminnilegan hátt.

 

 

Haustfrí grunskólanna | Fjölskyldur hvattar til að njóta útiveru á Árbæjarsafni og í Viðey

Haustfrí grunnskólanna í Reykjavík stendur nú yfir dagana 22.-26. október 2020.

Borgarsögusafn hvetur fjölskyldur til að njóta útiveru í fallegu umhverfi Árbæjarsafns og Viðeyjar í haustfríinu og virða fyrir sér safnhúsin, listaverkin og náttúruna.

Í tilefni af haustfríinu hefur verið settur upp skemmtilegur leikur á safnsvæði Árbæjarsafns. Leikurinn gengur út á að finna alls átta miða í gluggum sex húsa á víð og dreif um safnsvæðið. Á miðunum er skemmtilegur fróðleikur um Ísland fyrr á tímum. Þegar gestir hafa lesið alla átta miðana er næsta skref að fara á Facebooksíðu safnsins og svara þar nokkrum laufléttum spurningum.

Um helgina er síðan um að gera að taka Viðeyjaferjuna frá Skarfabakka en hún siglir 3svar á dag á laugardögum og sunnudögum kl. 13:15; 14:15 og 15:15. Muna bara að síðasta ferjan til baka fer kl. 16:30. Menningarkorthafar fá 10% afslátt í ferjuna. Í Viðey er góð aðstaða til skemmtilegrar útiveru og að sjálfsögðu almenningssalerni.

Þess má geta að á vef Borgarsögusafns er að finna mörg fróðleg og skemmtileg myndbönd sem upplagt er að kíkja á í haustfríinu. Sjá hér.

Vinsamlegast athugið að söfnin sjálf Árbæjarsafn, Landnámssýningin, Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Sjóminjasafnið í Reykjavík eru lokuð vegna samkomutakmarkanna. Í Viðeyjarstofu verður veitingasalan opin og opnunartíminn er eftir áætlunarsiglingum. Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að huga að persónulegum sóttvörnum.

Góðar stundir í haustfríi og verið velkomin á safnsvæði Árbæjarsafns og Viðeyjar!

Haustfrí grunskólanna | Fjölbreytt videoleiðsögn frá Listasafni Reykjavíkur

Listasafn Reykjavíkur býður upp á dagskrá utanhúss þetta haustfrí, þar sem fjölskyldur geta notið listar og leikja saman úti undir beru lofti, á þeim tíma sem hentar hverjum og einum.

Leikum að list | 22. - 26. október

Í smáforritinu Útilistaverk í Reykjavík (sjá nánar hér) má finna margt til gamans:

  • Ævintýri í Ásmundargarði – fjölskylduleiðsögn
  • Klambratún – hljóðleiðsögn
  • Hjólatúr um listaverkin í Breiðholti – hljóðleiðsögn
  • Perlufestin, höggmyndagarður kvenna í Hljómskálagarði – stutt hljóðleiðsögn
  • Laugardalur – lengri leiðsögn fyrir eldri krakka og fullorðna
  • Strandlengjan í miðbænum, listaverkin frá Hörpu til Höfða – göngu- eða hjólatúr fyrir eldri krakka og fullorðna

Hér getur þú hlaðið niður Útilistaverk í Reykjavík (Reykjavik Art Walk) smáforritinu úr App Store.

Hér getur þú hlaðið niður Útilistaverk í Reykjavík (Reykjavik Art Walk) smáforritinu úr Goggle Play.

Ratleikur um Breiðholt til útprentunar | 22. - 26. október
Að auki er skemmtilegur ratleikur um Breiðholtið sem auðvelt er að hlaða niður í spjaldtölvur eða prenta út og skemmta sér við. Þar eru bæði upplýsingar um listaverkin, áhugaverðar kveikjur að vangaveltum og gott kort. Hér finnur þú pdf-skjal með ratleiknum um Breiðholt.

Hér heima - vídeóleiðsögn | 22. - 26. október
Leiðsögn með Eddu Halldórsdóttur sýningarstjóra um sýninguna Hér heima á Kjarvalsstöðum (lengd 9 mín.). Á sýningunni gefst gott tækifæri til að kynnast mörgum lykilverkum frá ferli listamannsins Jóhannesar S. Kjarval og fá innsýn í þróun landslagsverka hans.

Videóið má finna hér.
Nánari upplýsingar um sýninguna má finna hér.

Slökkt á Fyssu- Laugardalur | Föstudaginn 23. október

Útilistaverkið Fyssa eftir Rúrí hefur glatt gesti og gangandi í Laugardalnum í sumar. Nú líður að vetrardvala verksins og verður því slökkt á Fyssu á föstudaginn, daginn fyrir fyrsta vetrardag 24. október. Samkvæmt gamla norræna tímatalinu er það fyrsti dagur fyrsta vetrarmánaðarins – gormánaðar. Fyssa verður svo gangsett að nýju á sumardaginn fyrsta, 22. apríl á næsta ári.

Nánari upplýsingar um má finna hér.
Nánari upplýsingar um verkið Fyssu má finna hér.

Listasafn Reykjavíkur er ein af fyrirmyndarstofnunum ársins 2020 í flokki minni stofnana hjá borg og bæ, stofnana sem hafa 5-49 starfsmenn.

Valið á Stofnun ársins 2020 var tilkynnt í gegnum streymi14. október sl. en titlana Stofnun ársins og Fyrirmyndarstofnun hljóta þær stofnanir sem þykja skara fram úr að mati starfsmanna í könnun Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu.

Listasafn Reykjavíkur lenti í fjórða sæti í flokki minni stofnana, á eftir Borgarsögusafni Reykjavíkur, Skrifstofu Velferðarsviðs Reykjavíkur og Aðalskrifstofu Akranesbæjar sem var í fyrsta sæti.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Listasafns Reykjavíkur hér.

Þar má jafnframt fá upplýsingar um yfirstandandi sýningar sem hægt verður að heimsækja þegar losað verður um samkomutakmarkanir.