ÁRSKORT Á LISTASAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á þremur stöðum

Listasafn Reykjavíkur er lifandi og framsækinn vettvangur sem býður upp á fjölbreyttar sýningar á nútíma- og samtímalist, málverkum og skúlptúrum eftir virta íslenska og erlenda listamenn. Safnið er jafnframt vettvangur fyrir ungt og upprennandi hæfileikafólk.

ÁRSKORT Á BORGARSÖGUSAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á fimm einstökum stöðum

Borgarsögusafn Reykjavíkur er næststærsta safn landsins á eftir Þjóðminjasafninu. Hlutverk þess er að safna, skrásetja, varðveita og rannsaka menningarminjar sem eru einkennandi fyrir menningararf borgarinnar, og miðla sögu hennar og menningu frá landnámi til samtímans.

Borgarbókasafn Reykjavíkur er stærsta menningarstofnun borgarinnar. Þar er hægt að njóta fjölbreytts safnkosts og sækja innblástur í gegnum bókmenntir, listir og viðburði á vegum safnsins. Safnið er jafnframt vettvangur uppgötvunar og sköpunar með smiðjum og tilraunaverkstæðum þar sem tækniþekking og stafræn færni til framtíðar gegna lykilhlutverki.

Leikhús, söfn, sýningar, bíó, tónleikar, hátíðir og matur. Handhafar Menningarkorts Reykjavíkur njóta margvíslegra fríðinda hjá fjölmörgum samstarfsaðilum.

Í hverjum mánuði koma spennandi tilboð frá söfnum borgarinnar og samstarfsaðilum.

Tilboð fyrir Menningarkorthafa á Myrka Músíkdaga.

Handhafar Menningarkorts Reykjavíkur fá miða á tónlistarhátíðina Myrka músíkdaga 2020 á 20% afslætti.

Hátíðin hefst Laugardaginn 25. janúar og stendur til 1. febrúar í Hörpu og á öðrum tónleikastöðum í miðborg Reykjavíkur, í Breiðholtskirkju og Salnum í Kópavogi. Nánari upplýsingar um dagskrána má nálgast á www.myrkir.is.

Hægt er að nálgast miða á þessum kjörum á skrifstofu tix.is í Ránargötu 18 gegn framvísun Menningarkorts eða með því að senda tölvupóst á myrkirmusikdagar@gmail.com með efnislínunni „Menningarkort“.

*Athugið að afsláttur gildir ekki fyrir staka miða á tónleika Sinfóníuhljómsveitar

Myrkir músíkdagar er ein elsta tónlistarhátíð landsins og fagnar í ár 40 ára afmæli sínu. Á hátíðinni er samtímatónlist höfð í hávegum – með áherslu á flutning nýrra íslenskra verka í bland við áhugaverðar erlendar tónsmíðar. Fastagestir á hátíðinni eru Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur og Caput en auk þeirra kemur fram fjöldi annarra íslenskra og erlendra listamanna.

 

Janúartilboð – tveir fyrir einn á öll söfn Borgarsögusafns Reykjavíkur

Í janúar geta handhafar Menningarkorts Reykjavíkur boðið með sér gesti í hvert sinn sem þeir heimsækja eitthvert af söfnum Borgarsögusafns Reykjavíkur. Borgarsögusafn Reykjavíkur er eitt safn á fimm einstökum stöðum:

  • Árbæjarsafn
  • Landnámssýningin
  • Sjóminjasafnið í Reykjavík
  • Ljósmyndasafn Reykjavíkur
  • Viðey (ath. aðgengi að Viðey hefur verið lokað í óákveðinn tíma vegna viðgerða á aðalbryggjunni )

Nánari upplýsingar um söfnin má finna á www.borgarsogusafn.is.

Innsetning Hrafnhildar Arnardóttur / Shoplifter, Chromo Sapiens opnar á fimmtudaginn, 23. janúar í Hafnarhúsinu.

Innsetningin Chromo Sapiens eftir Hrafnhildi Arnardóttur / Shoplifter verður opnuð fimmtudaginn 23. janúar kl. 20.00 í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi.

Chromo Sapiens var framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum 2019. Hljómsveitin HAM semur tónverk sem hljómar í verkinu og mun sveitin koma fram á opnuninni. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, opnar sýninguna.

Chromo Sapiens er þakið miklu magni af einkennisefniviði listamannsins; gervihári. Litir, hljóð og aðlaðandi áferð leiða gesti í gegnum þrjú ólík rými. Fyrst eru það drungaleg hellakynni, Primal Opus, í litasamsetningum eldhræringa sem virkjuð eru af neðanjarðar hljóðheimi hljómsveitarinnar HAM. Næst er það Astral Gloria, þar sem skærlitaðar hárbreiður bylgjast um og litadýrð, áferð og hljóðmynd örva skilningarvitin með æpandi litum bifandi hárfaðms sem mýkist við lendingu í himnesku hreiðri Opium Natura. Þar flökta dúnmjúkir litatónar sem umvefja gesti friðsæld og sakleysi sjónrænnar alsælu.

Listsköpun Hrafnhildar Arnardóttur (f. 1969), sem einnig er þekkt sem Shoplifter, liggur á mörkum myndlistar, gjörninga og tísku og sækir hún áhrif frá dægurmenningu og fjöldaframleiðslu, auk alþýðulistar og handverkssögu. Á undanförnum fimmtán árum hefur hún á umfangsmikinn hátt kannað notkun og táknrænt eðli hárs, sjónræna og listræna möguleika þessarar líkamlegu afurðar og hvernig upplifa megi hár sem birtingarmynd sköpunar í nútíma menningu.

 

Birta Guðjónsdóttir, sýningarstjóri Chromo Sapiens í íslenska skálanum í Feneyjum, segir um verkið: „Maður gengur inn í verkið sem Homo Sapiens en gengur út sem Chromo Sapiens.”

Um 40.000 gestir heimsóttu íslenska skálann í Feneyjum og hafa umfjallanir um verkið birst í nær eitt hundrað alþjóðlegum listtímaritum og dagblöðum. Það er mikill fengur fyrir safngesti Listasafns Reykjavíkur að fá að upplifa verkið á Íslandi. Sýningin er unnin í samstarfi við Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar.

Frekari upplýsingsar má finna á heimasíðu Listasafns Reykjavíkur :

https://listasafnreykjavikur.is/frettir/syningaropnun-hrafnhildur-arnardottir-shoplifter-chromo-sapiens

 

 

Opnun Ljósmyndahátíðar Íslands á Ljósmyndasafni Reykjavíkur

Í dag fer fram opnun Ljósmyndahátíðar Íslands í Ljósmyndasafni Reykjavíkur með opnun sýningu Valdimars Thorlacius.

Sýningin sem ber yfirskriftina „···“ er í senn sjónræn túlkun á upplifun Valdimars af smábæjum, fólki, veðri og víðáttu á Íslandi og heimild um lífið í þorpinu. Við vinnslu verkefnisins fór hann á milli þeirra staða sem uppfylltu ákveðin skilyrði út frá skilgreiningu Hagstofunnar um stærð og gerð þéttbýliskjarna með allt að 500 íbúum.

Aðgangur á sýninguna er ókeypis á meðan Ljósmyndahátíð Íslands stendur en hún endar sunnudaginn 19. janúar. Sýning Valdimars Thorlacius stendur til 3. maí.

Frekari upplýsingar um Ljósmyndahátíð Íslands má finna á heimasíðu þeirra www.tipf.is .