ÁRSKORT Á LISTASAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á þremur stöðum

Listasafn Reykjavíkur er lifandi og framsækinn vettvangur sem býður upp á fjölbreyttar sýningar á nútíma- og samtímalist, málverkum og skúlptúrum eftir virta íslenska og erlenda listamenn. Safnið er jafnframt vettvangur fyrir ungt og upprennandi hæfileikafólk.

ÁRSKORT Á BORGARSÖGUSAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á fimm einstökum stöðum

Borgarsögusafn Reykjavíkur er næststærsta safn landsins á eftir Þjóðminjasafninu. Hlutverk þess er að safna, skrásetja, varðveita og rannsaka menningarminjar sem eru einkennandi fyrir menningararf borgarinnar, og miðla sögu hennar og menningu frá landnámi til samtímans.

Borgarbókasafn Reykjavíkur er stærsta menningarstofnun borgarinnar. Þar er hægt að njóta fjölbreytts safnkosts og sækja innblástur í gegnum bókmenntir, listir og viðburði á vegum safnsins. Safnið er jafnframt vettvangur uppgötvunar og sköpunar með smiðjum og tilraunaverkstæðum þar sem tækniþekking og stafræn færni til framtíðar gegna lykilhlutverki.

Leikhús, söfn, sýningar, bíó, tónleikar, hátíðir og matur. Handhafar Menningarkorts Reykjavíkur njóta margvíslegra fríðinda hjá fjölmörgum samstarfsaðilum.

Í hverjum mánuði koma spennandi tilboð frá söfnum borgarinnar og samstarfsaðilum.

Tveir fyrir einn á Sjóminjasafnið í Reykjavík í maí

Í maí geta Menningarkorthafar boðið með sér gestum á Sjóminjasafnið í Reykjavík* þar sem standa yfir tvær sýningar:

Fiskur og fólk – sjósókn í 150 ár

Á sýningunni er fjallað um sögu fiskveiða á Íslandi, frá því að árabátarnir viku fyrir stórskipaútgerð á síðustu áratugum 19. aldar og fram að aldamótunum 2000. Sagan er sögð frá sjónarhóli stærsta útgerðarbæjar landsins, Reykjavíkur, og sett fram á lifandi hátt með gripum og textum, myndum og leikjum.

Melckmeyt 1659 – fornleifarannsóknir neðjansjávar

Meira en 300 árum eftir að kaupskipið Melckmeyt strandaði við Íslandsstrendur fundu kafarar flak þess. Árið eftir var í fyrsta sinn framkvæmd víðtæk rannsókn á fornminjum neðansjávar við Ísland.

Á sýningunni fá gestir innsýn í rannsóknaraðferðir fornleifafræðinnar og fjallað verður um valda þætti úr sögu skipsins, áhafnar þess og verslunar á 17. öld. Einnig getur að líta nokkra þeirra gripa sem fundust við rannsóknina.

*Korthafar geta boðið með sér einum gesti í hvert skipti sem þeir heimsækja safnið í maí

Tveir fyrir einn á Landnámssýninguna í mars.

Í mars geta Menningarkorthafar tekið með sér gest á Landnámssýninguna Aðalstræti 16.

Sýningin veitir innsýn inn í líf og störf þess fólks sem fyrst settist að hér á landi. Þungamiðja hennar er rúst skála frá 10. öld sem fannst árið 2001 og er varðveitt á sínum upprunalega stað. Norðan við skálann fannst veggbútur sem er enn eldri, eða síðan fyrir 871, og er hann meðal elstu mannvistarleifa sem fundist hafa á Íslandi.

Með hjálp margmiðlunartækni og túlkun fornminja er ljósi varpað á líf og tilveru fyrstu íbúa Reykjavíkur og tengsl þeirra við umhverfið í nýju landi.

Söfn Reykjavíkur opna 4. maí

Söfn Reykjavíkurborgar verða opnuð að nýju, mánudaginn 4. maí þegar fjöldamörk samkomubanns breytast úr 20 í 50. Þetta á við um Listasafn Reykjavíkur, Borgarbókasafnið og Borgarsögusafn Reykjavíkur .
Menningarkort verða framlengd um 6 vikur, þann tíma sem söfnin hafa verið lokuð.
Skiladagur allra bókasafnsgagna hefur verið framlengdur til 14. maí og eru engar dagsektir reiknaðar fram að þeim degi.
Frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðum safnana.

Höfum tveggja metra regluna í huga og njótum alls þess sem söfnin hafa uppá að bjóða í sumar.

Öllum söfnum Reykjavíkurborgar lokað til 14. apríl. Gildistími Menningarkortsins framlengdur sem nemur lokuninni.

Öllum söfnum Reykjavíkurborgar lokað til 14. apríl.

Öllum söfnum Reykjavíkurborgar verður lokað frá og með 24. mars vegna herts samkomubanns. Lokunin stendur til 14. apríl svo framarlega sem ekki teygist á samkomubanninu.

Þetta þýðir að öllum bókasöfnum verður lokað í Reykjavík, Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsi, Kjarvalsstöðum og á Ásmundarsafni sem og eftirfarandi sýningarstöðum Borgarsögusafns: Landnámssýningunni, Sjóminjasafni Reykjavíkur, Ljósmyndasafni Reykjavíkur og safnsvæði Árbæjarsafns.

Áhugasömum er bent á vefsíður safnanna þar sem finna má ýmsan fróðleiks, svo sem um sýningar, listaverk, gamlar ljósmyndir, rannsóknarskýrslur og safnmuni sem söfnin geyma. Á vefsíðu Listasafns Reykjavíkur er einnig efni sem nota má í fjarkennslu og á morgun fer safnið af stað með listaverk dagsins í öllum sínum miðlum. Þá er vert að benda á app listasafnsins um útilistaverk í Reykjavík sem hægt er að nýta í gönguferðum um borgina.

Innri starfsemi safnanna verður þó með óbreyttu sniði og starfsfólk mun eftir sem áður svara erindum og sinna rannsóknum, skráningum og undirbúningi nýrra sýninga síðar á árinu. Ekki verða lagðar sektir á safnkost bókasafnsins á tímabilinu og gildistími Menningarkorta framlengist um sem nemur lokunartíma safnanna.

Fleira er í bígerð hjá söfnum Reykjavíkurborgar, til að miðla listum og menningu til borgarbúa, og verður það kynnt frekar á næstu dögum.