ÁRSKORT Á LISTASAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á þremur stöðum

Listasafn Reykjavíkur er lifandi og framsækinn vettvangur sem býður upp á fjölbreyttar sýningar á nútíma- og samtímalist, málverkum og skúlptúrum eftir virta íslenska og erlenda listamenn. Safnið er jafnframt vettvangur fyrir ungt og upprennandi hæfileikafólk.

ÁRSKORT Á BORGARSÖGUSAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á fimm einstökum stöðum

Borgarsögusafn Reykjavíkur er næststærsta safn landsins á eftir Þjóðminjasafninu. Hlutverk þess er að safna, skrásetja, varðveita og rannsaka menningarminjar sem eru einkennandi fyrir menningararf borgarinnar, og miðla sögu hennar og menningu frá landnámi til samtímans.

Borgarbókasafn Reykjavíkur er stærsta menningarstofnun borgarinnar. Þar er hægt að njóta fjölbreytts safnkosts og sækja innblástur í gegnum bókmenntir, listir og viðburði á vegum safnsins. Safnið er jafnframt vettvangur uppgötvunar og sköpunar með smiðjum og tilraunaverkstæðum þar sem tækniþekking og stafræn færni til framtíðar gegna lykilhlutverki.

Leikhús, söfn, sýningar, bíó, tónleikar, hátíðir og matur. Handhafar Menningarkorts Reykjavíkur njóta margvíslegra fríðinda hjá fjölmörgum samstarfsaðilum.

Í hverjum mánuði koma spennandi tilboð frá söfnum borgarinnar og samstarfsaðilum.

Hafnarhús: Tveir fyrir einn í september

Í september geta Menningarkorthafar tekið með sér gest í Listasafn Reykjavíkur, Hafnarhús, þar sem getur að líta þrjár sýningar:

Erró: Heimsferð Maós

Á árunum 1972 til 1980 málaði Erró seríuna Chinese Paintings, meira en 130 málverk sem segja sögu hins mikla leiðtoga sem fer sigurför um heiminn, en í rauninni fór Maó aðeins tvívegis til útlanda, í bæði skiptin á flokksþing Kommúnistaflokksins í Moskvu.

Það var kínverska serían sem gerði Erró þekktan í alþjóðlegu samhengi. Sýningin í Hafnarhúsi hefur að geyma málverk, samklippur og grafíkmyndir úr sameign Listasafns Reykjavíkur.

D39 Emma Heiðarsdóttir: Jaðar

Í sýningunni setur listamaðurinn fram vangaveltur um stund og stað myndlistar. Hvar og hvenær hefst listupplifun, hve lengi varir hún og hvert ferðast hún með áhorfendum?

Emma Heiðarsdóttir er 39. listamaðurinn til að sýna í sýningarröð Listasafns Reykjavíkur í D-sal.

Tilvist mannsins: Skissa að íslenskri samtímalist [III]

Á sýningunni er úrval verka sem sýna ólíkar leiðir listamanna til að kanna hvað felst í því að vera mannlegur. Í verkunum er staldrað við líkamlega og sálfræðilega eiginleika, viðburði og aðstæður sem segja má að séu grundvallaþættir tilverunnar.

Sýningin er þriðja skissan að íslenskri samtímalistasögu sem byggist á verkum úr safneign Listasafns Reykjavíkur.

Nánari upplýsingar um sýningarnar má finna hér

RIFF – afsláttur af hátíðarpössum fyrir korthafa*

Menningarkort Reykjavíkur mælir með RIFF - alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík.

RIFF er einn stærsti og fjölbreyttasti menningarviðburður á Íslandi. Gestum hennar stendur til boða að sjá það besta og ferskasta í alþjóðlegri kvikmyndagerð, spjalla við leikstjóra um verk sín, sækja málþing og fyrirlestra, tónleika og listasýningar, og að sjá kvikmyndir við óhefðbundin skilyrði.

Á hátíðinni, sem stendur frá 26. september til 2. október, verður sýndur fjöldi kvikmyndaperla sem sópað hafa til sín verðlaunum á hátíðum um heim allan.

*Forsala verður á pössum til Menningarkorthafa frá 5. til 20. september á skrifstofu hátíðarinnar, Tryggvagötu 17 (vesturenda) 2. hæð.

Hver korthafi getur keypt tvo passa gegn framvísun Menningarkorts.  Forsöluverð til korthafa er 13.500 kr. Eftir það er verð til korthafa 14.500 kr. og passar til sölu í Bíó Paradís á meðan á hátíð stendur.

ATH. að einungis 200 passar eru í boði á þessum kjörum.

Nánari upplýsingar um hátíðina og dagskrá hennar má nálgast á https://riff.is/

 

 

 

Nýtt Menningarkort 67+

Þann 1. júlí s.l. tók ný gjaldskrá gildi á söfnum Reykjavíkurborgar sem felur í sér að allir fullorðnir gestir greiða sama gjald inn á söfnin óháð aldri. Samhliða breyttu fyrirkomulagi var ákveðið að kynna til leiks sérstök Menningarkort fyrir 67 ára og eldri á afar hagstæðum kjörum.

Nýja Menningarkortið fæst með 70% afslætti, nú 1.800 kr., eða á sama verði og eitt stakt gjald inn á söfnin, og endurnýjun verður gjaldfrjáls að ári.

Það er einlæg ósk okkar að þeir sem eru 67 ára og eldri nýti sér það mikla menningarframboð sem borgin hefur upp á að bjóða í söfnum sínum með rauða Menningarkortinu. Við munum kappkosta að ná til hópsins með sérstökum tilboðum, viðburðum og uppákomum sem beint verður að handhöfum rauða kortsins, og vonumst við til þess að sjá fjölgun í hópi gesta í þessum hópi.

Kynning verður haldin á nýja kortinu á Kjarvalsstöðum miðvikudaginn 10. júlí kl. 14.00. Kortið verður selt með afslætti og mun kosta 1.500 kr. á meðan á kynningunni stendur, boðið verður upp á leiðsögn um sýningar á verkum Sölva Helgasonar og William Morris, nýir korthafar fá fría köku með kaffinu á kaffihúsinu á Kjarvalsstöðum og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs og Gísli Jafetsson framkvæmdastjóri félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni munu ávarpa gesti.

Ljósmyndasafn Reykjavíkur – Man ég fjallið

Man ég fjallið er yfirskrift sýningar sem opnuð verður fimmtudaginn 13. júní í Skoti Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Verkin á sýningunni eru eftir Lauru Valentino. Sýningin stendur til 21. ágúst 2019.

"Man ég fjallið er framhald af verkinu Andlit jarðar, eða öllu heldur minning mín af vinnslu þess verkefnis. Með því að endurvinna ljósmyndir sem ég tók fyrir nokkrum árum öðluðust þær sjálfstætt líf og fengu á sig draumkenndan blæ. Landslag líkt og manneskjur er síbreytilegt, erfitt er að staðsetja hvort tveggja í ákveðnu augnabliki. Þættir eins og veðurfar, árstíðir, birta, náttúruöfl og athafnir manneskjunnar hafa áhrif á skynjun okkar á því sem fyrir augu ber." - Laura Valentino

Laura Valentino kannar fegurð og munúð í sígildu myndefni eins og fólki og landslagi. Hún notar hefðbundnar ljósmyndunaraðferðir til að fanga hið eilífa og almenna í hversdagslegum viðfangsefnum. Með því að beita aðferðum hliðrænnar (e. analog) ljósmyndunar myndast fjarlægð milli viðfangsins og túlkunar á því. Útkoman vekur upp minningar og tilfinningar sem endurspegla framrás tímans.