ÁRSKORT Á LISTASAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á þremur stöðum

Listasafn Reykjavíkur er lifandi og framsækinn vettvangur sem býður upp á fjölbreyttar innlendar og alþjóðlegar sýningar á nútíma- og samtímalist, málverkum og skúlptúrum eftir virta íslenska og erlenda listamenn. Safnið er jafnframt vettvangur fyrir ungt og upprennandi hæfileikafólk.

ÁRSKORT Á BORGARSÖGUSAFN REYKJAVÍKUR

Eitt safn á fimm einstökum stöðum

Borgarsögusafn Reykjavíkur er næststærsta safn landsins á eftir Þjóðminjasafninu. Hlutverk þess er að safna, skrásetja, varðveita og rannsaka menningarminjar sem eru einkennandi fyrir menningararf borgarinnar, og miðla sögu hennar og menningu frá landnámi til samtímans.

Borgarbókasafn Reykjavíkur er stærsta menningarstofnun borgarinnar. Menningarhús safnsins eru sex talsins ásamt bókabíl og sögubíl. Þar er hægt að njóta fjölbreytts safnkosts og sækja innblástur í gegnum bókmenntir, listir og viðburði á vegum safnsins. Safnið er jafnframt vettvangur uppgötvunar og sköpunar með smiðjum og tilraunaverkstæðum þar sem tækniþekking og stafræn færni til framtíðar gegna lykilhlutverki.

Leikhús, söfn, sýningar, bíó, tónleikar, hátíðir og matur. Handhafar Menningarkorts Reykjavíkur njóta margvíslegra fríðinda hjá fjölmörgum samstarfsaðilum.

Í hverjum mánuði koma spennandi tilboð frá söfnum borgarinnar og samstarfsaðilum.

Febrúartilboð – tveir fyrir einn á Ásmundarsafn fyrir korthafa

Í febrúar geta Menningarkorthafar boðið með sér á Ásmundarsafn*

Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur. Af því tilefni verður lögð áhersla á útilistaverk í Ásmundarsafni. Í febrúar getur að líta þar tvær sýningar:

Ásmundur Sveinsson: Undir sama himni - list í almenningsrými

Verkum Ásmundar hefur verið komið fyrir á opinberum stöðum víða um land og er það í anda hugmynda hans um að listin eigi ekki að vera fyrir fáa útvalda heldur hluti af daglegu lífi allrar alþýðu.

Á sýningunni eru bæði frummyndir verka sem standa úti í almenningsrýni og verk sem tengjast þeim.

Sigurður Guðmundsson: Skúlptúr og nánd

Víða er að finna stórar höggmyndir eftir Sigurð Guðmundsson (1942) í opnu rými, bæði á Norðurlöndum og í Mið-Evrópu.

Sigurður leggur áherslu á hið skáldlega með heimspekilegu ívafi. Hann vinnur í fjölda miðla, ljósmyndir, höggmyndir, teikningar, grafík og gjörninga, en hefur líka samið tónverk og skrifað bækur.

 

*Korthafar geta tekið með sér einn gest í hvert sinn sem þeir heimsækja safnið í febrúar. Nánari upplýsingar um báðar sýningar má finna á www.listasafnreykjavikur.is

STOCKFISH FILM FESTIVAL & INDUSTRY DAYS – 25% afsláttur af miðaverði fyrir korthafa*

Kvikmyndahátíðin Stockfish Film Festival & Industry Days verður haldin í fimmta sinn dagana 28. febrúar til 10 mars í Bíó Paradís. 

Markmið hátíðarinnar er að þjóna samfélaginu sem hún sprettur úr, efla og auðga kvikmyndamenningu á Íslandi árið um kring og vera íslenskum kvikmyndaiðnaði lyftistöng bæði erlendis og innanlands. Áhersla er lögð á metnaðarfulla dagskrá og viðburði. T.a.m. verða sýndar yfir 20 sérvaldar, alþjóðlegar verðlaunamyndir á hátíðinni og fá áhorfendur tækifæri til að ræða við kvikmyndagerðafólk sem stendur á bak við þær.

* Miðar á þessum kjörum verða seldir í miðasölu Bíó Paradís gegn framvísun Menningarkorts þegar nær dregur hátíðinni. Nánari upplýsingar um dagskrá og opnun miðasölu má finna hér.

Hringur, ferhyrningur og lína – sýningaropnun á Kjarvalsstöðum

Á Safnanótt, föstudaginn 8. febrúar kl. 17.00 verður opnuð sýning á verkum myndlistamannsins Eyborgar Guðmundsdóttur (1924 - 1977) í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum. Sýningin nefnist Hringur, ferhyrningur og lína sem er tilvitnun í Eyborgu sjálfa þegar hún lýsir frumformum geómetrískar listar.

Eyborg Guðmundsdóttir var afkastamikill myndlistamaður þrátt fyrir stuttan feril. Hún vann að myndlist og hönnun í um 16 ár og eftir hana liggja á annað hundrað listaverk. Eyborg var sérstæður listamaður í íslenskum listheimi. Verk hennar byggja á fyrirmyndum geómetrískrar afstraktlistar þar sem sjónræn áhrif reglubundinna forma eru megináherslan, stíll sem kenndur er við "op-list."

Sýningin á Kjarvalsstöðum er sett upp í lauslegri tímaröð. Þar eru um eitt hundrað verk sýnd, Þau samanstanda af málverkum, plexiglermyndum, klippimyndum, lágmyndum og hönnun. Verkin, sem valin hafa verið af kostgæfni af sýningastjórum, eru flest í einkaeign og því gefst einstakt tækifæri til þess að sjá þau á sýningunni.

Sýningastjórar eru tveir, Heba Helgadóttir og Ingibjörg Sigurjónsdóttir. Heba hefur lagt stund á nám í listfræði við Háskóla Íslands og rannsakað verk Eyborgar fyrir BA ritgerð sína. Ingibjörg lauk BA námi frá myndlistadeild Listaháskóla Íslands árið 2010 og hefur tekið þátt í sýningum, gjörningjum og öðrum verkefnum bæði á Íslandi og erlendis. Hún er ein af aðstandendum Kling og Bang gallerís.

Páll Stefánsson Núna – Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Núna er yfirskrift sýningar með ljósmyndum Páls Stefánssonar sem opnuð verður í Ljósmyndasafni Reykjavíkur laugardaginn 19. janúar kl. 15.00

„Eftir þrjátíu og sjö ár sem ferðalangur og ljósmyndari er það þögnin sem er hvað minnistæðust. Þessi ærandi þögn í endalausri víðáttu Vatnajökuls, líka þrúgandi þögnin í Cox´s Baazar í Bangladesh þar sem hálf milljón flóttamanna höfðu misst málið. Ég er ekki að líta til baka, þessi sýning er um núið, þau augnablik sem ég er að fanga hér og nú. Flóttamenn á faraldsfæti, straumhörð á sem líður áfram. Kona í hvarfi bak við við þúfu eða hól. Hól sem breytist í fjall. Fjallmyndarlegan mann sem á ekkert. Ekki einu sinni framtíð.“

Páll Stefánsson er fæddur norður undir baug, í Öxarfjarðarhreppi árið 1958. Hann nam ljósmyndun í Svíþjóð frá 1979 til 1982 og er nú Sony Global Imaging Ambassador. Páll hefur gefið 37 bækur, með myndum af fjöllunum handað við hornið, líka af koptískri stelpu í Alexandríu og löngum skuggum á gulnuðum sandi í Önundarfirði fyrir vestan.

„Ef staðir fanga mig, þá gríp ég augnablikin,.....núna.“

Sýningin mun standa til 12. maí 2019.